154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

aukinn stuðningur við skólakerfið.

[15:19]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég er að megninu til sammála hv. þingmanni. Það er ekki að ástæðulausu sem við erum samkvæmt menntastefnu að endurskipuleggja frá grunni nýja menntamálastofnun og leggja þar aukna áherslu á þjónustu. Það er ekki að ástæðulausu sem við erum að skrifa frumvarp um heildstæða skólaþjónustu þvert á skólastig. Það er vegna þess að það er ákall eftir auknum stuðningi og þjónustu við skólakerfið allt í kringum landið. Mikið af þeirri þjónustu spyr ekki að því hvort um sé að ræða nemendur og kennara á grunnskólastigi eða framhaldsskólastigi og þess vegna er verið að horfa á heildstæða þjónustu við skólakerfið. Þar skipta námsgögn gríðarlegu máli og þess vegna erum við líka að endurskoða umgjörðina á því. Það kom fram þegar við afgreiddum málið um þessa stofnun að þetta væru frumvörpin sem kæmu svo í framhaldinu; skólaþjónustan og svo ný umgjörð í kringum námsgögnin.

Síðast en ekki síst tek ég undir með hv. þingmanni um íslenskuna. Þar er gríðarlega mikilvægt að allir stígi inn og þar þurfum við að stíga miklu fastar til jarðar, ekki eingöngu með fjármagni heldur líka aðkomu atvinnulífsins. Við þurfum (Forseti hringir.) að hvetja til þess og setja það skýrt í lög og annað sem kemur héðan að íslenska sé það tungumál sem við notum (Forseti hringir.) og að atvinnurekendur beri þar jafna ábyrgð á innleiðingu og inngildingu og ríkið og sveitarfélögin.