154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

skaðaminnkandi úrræði fyrir fólk með fíknivanda.

[15:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og hún er ansi víðtæk fyrirspurnin, snýr að skaðaminnkun. Nýverið skipaði ég starfshóp til að taka sérstaklega fyrir skaðaminnkun og skaðaminnkunarúrræði sem hluta af stefnu í áfengis- og vímuvörnum. Það hefur ekki verið og það er út af fyrir sig stórt skref og talar inn í, getum við sagt, þá tilveru sem hv. þingmaður fór hér yfir. Já, embætti landlæknis tók þessa ákvörðun. Ég get upplýst hv. þingmann að það hefur verið vinna í gangi til að reyna að ná utan um þann hóp sem hafði fengið ávísað lyfjum og m.a. í gegnum VoR-teymið, þannig að það er verið að reyna að taka út stöðuna á því máli. Ég hef ekki upplýsingar um það hversu stór þessi hópur er enn sem komið er. Ég vil hins vegar ítreka það að við erum að taka mjög mikilvæg og drjúg skref núna í þróun og innleiðingu skaðaminnkandi úrræða. Þessi starfshópur sem ég vísaði hér til vinnur að stefnumótun í skaðaminnkun og skaðaminnkandi úrræðum út frá þeirri þekkingu og reynslu sem hefur skapast og þróast og mun byggja á og vera í samfloti við stærri stefnu og annan hóp sem er þá að vinna að því að uppfæra stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum.