154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

bólusetning gegn mislingum.

[15:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að taka upp þetta mál. Það er rétt að hér hefur verið fjallað um það í fréttum að það komu upp smit, mislingar greindust hér í fullorðnum einstaklingi 2. febrúar, sem kom erlendis frá miðvikudaginn 1. febrúar síðastliðinn. Þá veltum við því fyrir okkur hvernig við bregðumst við og hvernig kerfið okkar virkar þegar á reynir. Það hefur náðst mjög góður árangur á þessu sviði, það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á, og það er mikilvægt að varðveita þann árangur. Hér var farið að bólusetja við mislingum árið 1976 og það tókst með bólusetningum nánast að útrýma mislingum hér á landi. Öll börn hér á landi eru bólusett í tvígang, við 18 mánaða aldur og 12 ára aldur. Komið hefur fram að til að mynda hjarðónæmi hér þurfi þátttaka að vera um 95% og var hún það lengi vel en hefur á undanförnum árum verið að gefa hægt og bítandi eftir, fyrir Covid og í kjölfar Covid. Þetta eru í kringum 90% þannig að það er viss hætta, af því að þetta er mjög smitandi og þeir sem eru nálægt eru mjög útsettir fyrir smiti. Þetta er bráðsmitandi sjúkdómur sem smitast frá öndunarfærum og er mjög mikilvægt að takast á við það strax. Það er hætta á hópsmitum og sóttvarnalæknir greip þegar til aðgerða með heilsugæslu og spítala og öllum þeim sem komu að og var þegar farið í smitrakningu (Forseti hringir.) og allir þeir sem hafa verið útsettir hafa fengið skilaboð. Hér eru komnar um leið leiðbeiningar (Forseti hringir.) frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um það hvernig fólk geti, hafi það fengið skilaboð, fengið þjónustu.