154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

bólusetning við mislingum.

[15:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Það er auðvitað gott að heyra að það hafi verið gripið til viðeigandi ráðstafana og smitrakning farið í gang. Mér finnst hins vegar mikilvægt að setja fókusinn á það að við verðum að ná upp bólusetningarhlutfallinu því það er það sem tryggir hjarðónæmi, það er það sem tryggir vernd þeirra sem veikastir eru fyrir og geta ekki fengið bólusetningu. Við þekkjum þetta úr umræðunni um Covid. Við vitum það líka að það mun alltaf berast hingað smit, fólk er einfaldlega svo mikið á faraldsfæti. Það eru fleiri sjúkdómar sem ég ætla samt ekkert að fara að kafa ofan í í þessari fyrirspurn, en ég vil bara nefna alvarlega sjúkdóma eins og til að mynda rauða hunda. Þar er líka mikilvægt að við höldum uppi bólusetningarhlutfallinu. (Forseti hringir.) Ég vil því brýna hæstv. ráðherra um að láta þetta mál verða til þess að vekja okkur og við förum í alvöruátak til þess að tryggja hér hjarðónæmi við sjúkdómum sem við eigum bólusetningu við. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)