154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

Almannavarnir og áfallaþol Íslands.

[16:10]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir að efna til þessarar mikilvægu umræðu. Við höfum aðeins tæpt á nokkrum af þeim atriðum sem hann kom inn á í sinni ræðu en ég fagna því mjög að fá tækifæri til að ræða stöðuna heildstætt því að undanfarin ár höfum við gengið í gegnum mjög margháttuð áföll sem hafa reynt gríðarlega á innviði almannavarnakerfisins og í raun og veru á alla okkar viðbragðsaðila. Það er nærtækt að rifja upp langvarandi heimsfaraldur þar sem reyndi mjög á almannavarnir og heilbrigðiskerfið en ekki síður á ráðuneytin, Stjórnarráðið og samhæfingu og samþættingu aðgerða. Eldsumbrot sem núna standa yfir á þéttbýlasta svæði landsins þar sem við erum með spár um að við getum vænst áframhaldandi eldsumbrota og jarðhræringa kalla einnig á gríðarlega samþættingu og samhæfingu alls stjórnkerfisins, svo ekki sé minnst á aðrar þær ógnir sem steðja að, eins og loftslagsbreytingar sem hv. þingmaður nefndi. Í gegnum öll þessi áföll, og ég gæti talið upp fleiri því að það hafa orðið skriðuföll og snjóflóð, við fengum aftakaveður sem í raun og veru tók rafmagnið af Norðurlandi hér í lok árs 2019, þá vil ég segja að viðbragðsaðilar okkar hafa staðið sig einstaklega vel. En ég ætla að fá að taka undir með hv. þingmanni að þetta er fáliðuð sveit. Það er fáliðuð sveit sem er í föstu starfi hjá almannavörnum ríkislögreglustjóra. Ég var nú að kanna í dag hver væri fastur fjöldi stöðugilda og það eru 11,5 stöðugildi sem eru föst stöðugildi. Síðan munu bætast við 1–2 stöðugildi á árinu fyrir Reykjanes sem eru hugsuð fyrir þetta ár en að öðru leyti er verið að fá lánað fólk frá öðrum embættum og öðrum stofnunum, eins eru verktakar, fólk er ráðið í skemmri tíma og því er mikið álag á sama fólkinu. Ég vil fá að taka undir með hv. þingmanni að þetta þurfum við að taka til skoðunar hér.

Almannavarnalög eru frá árinu 2008 og þar var sett á laggirnar svokallað almannavarna- og öryggismálaráð en nokkrum árum síðar voru sett önnur lög um þjóðaröryggisráð. Það sem á hefur skort er að samræma hlutverk þessara ólíku ráða. Mitt mat á þessu er að þjóðaröryggisráð hafi í raun og veru tekið töluvert af þeim hlutverkum sem ætlað var að almannavarna- og öryggismálaráð sinnti á sínum tíma og að mörgu leyti finnst mér það eðlilegri vettvangur því að þótt þar sitji færri er almannavarna- og öryggismálaráð öðruvísi samsett og til að mynda eru þar ekki fulltrúar þingsins eins og í þjóðaröryggisráði. Mögulega væri hægt að endurskoða hlutverk almannavarnaráðs og ég veit að það er hafin endurskoðun á almannavarnalögum hjá dómsmálaráðherra. Í öllu falli held ég að þarna skipti máli að horfa á ólík hlutverk þessara ólíku ráða.

Þegar áföll hafa dunið yfir virkjast líka ákveðinn hópur innan stjórnkerfisins sem er svokallaður ráðuneytisstjórahópur. Það hefur í raun gengið nokkuð vel að tryggja þá samhæfingu aðgerða. Til að mynda kom út úr þeirri vinnu átakshópur sex ráðuneyta sem var skipaður í janúar 2020 til að vinna tillögur til úrbóta á innviðum um land allt til að styrkja áfallaþol samfélagsins. Af því að hv. þingmaður veltir því aðeins fyrir sér hvaða aðgerðir hafa verið og hvað er fyrirhugað þá var sá hópur settur á laggirnar eftir óveðrið 2019. Þar komu fram 287 aðgerðir og í byrjun árs 2023 var vinnu við tæplega 70% skammtímaaðgerða að fullu lokið, vinna hafin við allar skammtímaaðgerðir og vinna hafin við 95% langtímaaðgerða. Í mars 2021 var eiginlega endurnýjað umboð ráðuneytisstjórahópsins vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga sem hefur þetta hlutverk að tryggja heildstæða yfirsýn og samhæfingu aðgerða. Raunar áður en sá hópur var settur á laggirnar var búið að vinna töluvert mikla undirbúningsvinnu. Það er verið að vinna mjög víða í kerfinu en það er mikilvægt að við nýtum þessa reynslu, í fyrsta lagi til að fara yfir stöðu þessa mikilvæga aðila, almannavarna, og til að nýta reynsluna í endurskoðun á lögum um almannavarnir.

Að lokum, vegna þess að hv. þingmaður nefnir hér fjármögnun allra þeirra sjálfboðaliða, þá sat ég með Rauða krossinum og Landsbjörg á fundi í síðustu viku. Þau voru að ræða fjármögnun sinna samtaka og þá tekjulind sem þau hafa í gegnum happdrættismál þar sem þau hafa mikinn hug á að gera ákveðnar breytingar. Við verðum að fara yfir fjármögnun þessara aðila (Forseti hringir.) þannig að þeim sé áfram gert kleift að afla sjálfstæðra tekna, en eins að fjármögnun þeirra til lengri tíma verði tryggð. Það stóð til í kjölfar mikillar umræðu sem hér varð um flugeldasölu að setja á laggirnar starfshóp (Forseti hringir.) til að fara yfir fjármögnun björgunarsveitanna. Það þarf að ráðast í þá vinnu.