154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

Almannavarnir og áfallaþol Íslands.

[16:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu því að það er mikilvægt að við ræðum hér almannavarnir og áfallaþol. Spurningarnar sem lagt er upp með eru víðtækar en ég ætla aðeins að koma inn á nokkur atriði sem þar koma fram. Fullyrðingin „við erum öll almannavarnir“, sem við þekkjum svo vel úr Covid, á alltaf við en það breytir því samt ekki að forysta og ábyrgð á almannavörnum þarf að vera skýrt skilgreind; forysta sem samhæfir viðbragðsaðila, ber ábyrgð á samhæfingu kerfa, á í alþjóðasamstarfi þegar við á og samhæfir upplýsingagjöf. Ég tel þess vegna að það hafi verið stigið mjög mikilvægt skref á sínum tíma þegar ríkislögreglustjóra og lögreglustjórum í hverju umdæmi var falið forystuhlutverk í þessum efnum undir yfirstjórn dómsmálaráðherra því að það er svo mikilvægt að nýta tæki, tól, verkferla og valdheimildir sem eru til staðar dagsdaglega, að það þurfi ekki að virkja eitthvert alveg nýtt kerfi þegar almannavarnaástand kemur upp. Það er skilvirkt samstarf í gangi alla daga og þekkingin er til staðar á samfélögum í hverju umdæmi. Það er þó eflaust hægt að halda áfram að bæta og ég tek undir það sem hér hefur komið fram í umræðunni að tryggja þurfi nægan mannskap í almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Áfallaþol er svo eitthvað sem stjórnvöld þurfa að vera meðvituð um við allar ákvarðanir og sérstaklega við uppbyggingu innviða eins og samgöngukerfis, raforkukerfis, ljósleiðara og ég tala nú ekki um við skipulag byggðar. Og alltaf þarf að byggja ákvarðanatöku um uppbyggingu innviða á bestu þekkingu á náttúrunni. Það er líka ómetanlegt að eiga sjálfboðaliða um land allt sem eru boðnir og búnir að sinna fyrsta viðbragði en það er algjörlega tímabært að skoða hvað tekur við þegar almannavarnaástand varir til lengri tíma.