154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

sjávargróður og þörungaeldi.

342. mál
[17:02]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar bara að koma hérna upp til að þakka fyrir þessa fyrirspurn og taka undir mikilvægi þessa máls. Ég einmitt flutti hér þingsályktunartillögu á fimmtudaginn síðasta um þetta sama efni og tek undir að það þurfi að styrkja laga- og regluverkið í kringum sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir og eru ræktaðir í sjó hér á landi. Við hér á Íslandi getum stutt við þörungaeldi með því að fylgja fordæmi nágrannaríkja sem hafa sett stefnur og reglur til að ýta undir sjálfbæran vöxt greinarinnar. Sértækt regluverk um smáþörungaframleiðslu á Íslandi er ekki til og vöntun á því mun sennilega hamla vexti verulega. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við flýtum þessari vinnu sem hæstv. ráðherra kom inn á í sinni ræðu, því að þetta gæti orðið mikil lyftistöng til útflutnings á komandi árum en nokkur fyrirtæki eru farin að vinna að því með mjög merkilegum hætti í þessum geira.