154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

áhættumat vegna hugsanlegra jarðhræringa og eldsumbrota.

637. mál
[17:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir mjög efnismikið svar og mér finnst það skipta máli hvernig hæstv. forsætisráðherra fór lið fyrir lið yfir það hvað er í undirbúningi og ég fagna því sérstaklega að það er heildstætt mat um þetta mál í gangi. Ég tek undir það að áhættumat verður að vera byggt á góðum gögnum. Það skiptir líka máli að yfirvöld hverju sinni, stjórnvöld hverju sinni, miðli áfram upplýsingum, miðli gögnum og hafa það eins aðgengilegt og hægt er, ekki síst til að eyða óvissunni, eyða óöryggi. Mér finnst skipta máli að það hafi líka komið fram og þess vegna vil ég undirstrika þakkir fyrir góð svör.

Ég held að það sé annað sem er tengt og ótengt þessu sem ég vil koma inn á líka, talandi um langtímaplön. Við þurfum langtímaplön í svo mörgu. Núna þegar þessar eldhræringar og jarðhræringar eru á fullu á Reykjanesinu þá held ég að það þurfi ekki að koma neinu fólki á óvart, og ekki mér sem hef verið talsmanneskja þess að færa flugvöllinn í Reykjavík yfir í Hvassahraun, að við þurfum að halda áfram að færa flugvöllinn, ekki missa af því markmiði. Ekki síst núna eftir þessar eldhræringar þá er verðmæti flugvallarins orðið enn meira og mikilvægara þegar kemur að byggingu. Við þurfum að halda áfram að segja hvert við viljum fara með völlinn. Mín skoðun er sú að við þurfum að fara að taka þessar ákvarðanir, færa innanlandsflugið í Keflavík, byggja upp öflugar almenningssamgöngur, m.a. í formi lesta, og við þurfum að geta byggt upp áfram og gert langtímaplön líka fyrir kennslu- og æfingaflugið, sem ég sé fyrir mér að færist austur fyrir fjall eins og t.d. í nágrenni Selfoss eins og þau hafa verið að leggja áherslu á þar. Það er margt sem ýtir við okkur í stjórnmálunum og ýtir við stjórnvöldum að taka ákvarðanir (Forseti hringir.) sem skipta máli til skemmri tíma en ekki síður til lengri tíma þannig að við getum hafið þessi ferli. (Forseti hringir.) Við þurfum að tala skýrt og fara að taka ákvarðanir í þessum mikilvægu framtíðarmálum.