154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

sólmyrkvi.

602. mál
[17:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Eitt af því sem gerir svo erfitt að skipuleggja komur ferðamanna á Íslandi er að við sjáum ekki endilega fyrir hvað kemst í tísku sem ferðamannastaður næsta árs eða þarnæsta. Þannig var ekkert okkar búið undir það þegar stjarnan Justin Bieber kom Fjaðrárgljúfrum í tísku og engir innviðir voru tilbúnir, engir vegir gátu borið þann fjölda ferðamanna sem vildu sjá staðinn þar sem tónlistarmyndbandið með Justin Bieber var tekið. Önnur stjarna mun hafa svipuð áhrif árið 2026. Það verður sjálf sólin okkar. Við vitum nefnilega að í ágúst 2026 verður sólmyrkvi, almyrkvi á sólu sem mun sjást frá Íslandi og best og lengst mun hann sjást frá Látrabjargi. Þangað hefur lengi verið erfitt að komast og lengi staðið til að bæta þar úr en við vitum að eftir 918 daga og 22 klukkustundir verður þar stappfullt af ferðamönnum sem hafa jafnvel farið yfir hálfan heiminn til að sjá þennan magnaða viðburð.

Við munum hvernig það var 2015 þegar Íslendingar allir horfðu til himins. Þó að hér í Reykjavík hafi bara dregið skugga fyrir 97,5% af sólinni þá horfðum við öll til himins og það er eitthvað við þessa upplifun, ég held að hæstv. ráðherra geti örugglega tekið undir með mér, sem bara blæs allri bölmóðssýki í burtu. Þetta er svo magnað að þetta nær inn í hjartarætur. Ég skil vel að fólk ferðist um langan veg til að upplifa þetta. Þannig var það einmitt 2015 þegar almyrkvi náði yfir Færeyjar. Þangað sóttu 11.000 ferðamenn til að berja almyrkvann augum. Gæti vegurinn út á Látrabjarg annað álíka umferð? Ég held að hann fari nú varla með að ná nema hluta af þessu.

Þetta er svo einstakur viðburðir, frú forseti. Síðast sást almyrkvi frá Íslandi árið 1954. Eftir 2026 mun hann næst sjást árið 2196 þannig að þetta er í eina skiptið á ævi okkar hæstv. ráðherra sem hægt verður að berja almyrkva augum frá Íslandi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á vegamálum landsins og samgöngum: Til hvaða ráðstafana verður gripið til svo að vegakerfið anni þeim mikla fjölda gesta sem er fyrirsjáanlegt að sækist eftir því að upplifa þennan stórkostlega almyrkva 12. ágúst 2026 við Látrabjarg?