154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

blóðgjafir.

207. mál
[17:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Mig langar hér í dag að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvað sé að frétta af vinnu til að afnema mismunun gagnvart samkynhneigðum þegar kemur að blóðgjöf. Þetta er ónákvæmt orðalag, skal ég viðurkenna, en endurspeglar kannski samt sagnfræðina dálítið, endurspeglar að þær reglur sem gilda núna um blóðgjöf voru settar á allt öðrum tíma. Þær voru settar þegar heimurinn var ansi stressaður vegna sjúkdóms sem var nýtilkominn, HIV, sem virtist leggjast umfram allt á samkynhneigða karlmenn. Faraldursfræði sjúkdómsins var illa þekkt, leiðir til greina hann voru engan veginn á sama stað og þær eru í dag og við skulum bara segja það, fordómar í samfélaginu gagnvart samkynhneigðum voru mun rótgrónari og kerfislægari en í dag. Þess vegna hefur umræða um að breyta þessum reglum verið mikil og vaxandi á síðustu árum og mörg lönd tekið það skref undanfarið að jafna reglurnar óháð kynhegðun fólks.

Vandinn við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessu máli er hins vegar að tímamörkin eru alltaf að skríða frá okkur. Þannig glöddumst við mörg í september 2021 þegar þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra kynnti drög að reglugerð um að afnema þessa mismunun. En svo komu kosningar og reglugerðin var ekki undirrituð. Stuttu seinna átti ég orðastað við hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra sem mætti mjög jákvæður í umræðuna og þetta var góð umræða sem við áttum hér, fólk á öllu hinu pólitíska litrófi var sammála um að hér þyrfti að bæta úr. Hér fengust þær upplýsingar í janúar fyrir tveimur árum að ráðherrann sæi fyrir sér að breytingar myndu taka gildi kannski í apríl, maí það sama ár. Í millitíðinni var síðan samþykkt hér aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks þar sem var talað um sama verkefnið með tímaáætlun 2022–2023. Nú er árið 2023 liðið og því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvað sé að frétta. Það er kannski rétt að nefna að á síðasta ári voru sambærilegar reglur felldar úr gildi í Bandaríkjunum, Kýpur, Frakklandi, Grikklandi, Írlandi, Litáen og Slóveníu. Hér er bara heimurinn að breytast. Af hverju ekki Ísland með? Og þá vil ég að Ísland geri það almennilega (Forseti hringir.) en ekki með niðurlægjandi skírlífisákvæði eins og sum lönd halda til streitu og eins og birtist í reglugerðardrögum fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra.