154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

blóðgjafir.

207. mál
[18:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu. Þetta er mikilvægt mál í öllu samhengi og ég þakka líka þeim hv. þingmönnum sem hér tóku til máls og komu einmitt inn á það hvað það skiptir miklu máli að við gefum öllum þeim sem tök hafa á því möguleika til að gefa blóð. Með tilkomu NAT-skimunar, kjarnsýruprófa, er þetta gerlegt. Það mun ekki einvörðungu auka öryggi sjúklinga heldur einnig auka möguleika á að stækka mengi blóðgjafa. Það er, eins og fram hefur komið hér, mjög mikilvægt. Það er hægt að auka aðgengi ýmissa hópa að blóðgjöf án þess að fórna gæðum eða öryggi, svo sem þeirra sem hafa verið húðflúraðir eða gataðir eða speglaðir með sveigjanlegu speglunartæki o.s.frv. Öryggið verður meira og gefur okkur tækifæri á að sinna þessu mikilvæga máli og fjölga blóðgjöfum og það er bara í öllu samhengi mjög mikilvægt.

Ég ætla ekki að fullyrða um það af hverju hlutir hafa tafist. Auðvitað er mjög mikilvægt að þeir aðilar sem ég nefndi hér vinni þetta í sameiningu. Ég vil ítreka það hér að ég bind vonir við að þessi tímalína geti gengið eftir og það er ágætt að segja það, það setur þrýsting á að maður standi við það, að við komum þessari frávísun að sem þarf að birtast í reglugerð og birtum í samráði á næstu vikum og fáum fjármögnun í fjármálaáætlun og förum af stað í samvinnu við þessa aðila, ráðgjafarnefnd og Blóðbankann og sóttvarnalækni. Þá ætti reglugerð að geta tekið gildi fyrir allt kerfið, miðað við það sem þarf að gera, frá og með 1. janúar 2025.