154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

lokun fangelsisins á Akureyri og fangelsismál.

530. mál
[19:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir það samtal sem hér hefur farið fram. Ég verð að taka undir með hv. fyrirspyrjanda, mér finnst þetta ekki boðlegt eða gott ástand. Ég óska eftir því að ráðherra taki saman þessar tölur sem hér er um spurt, bæði í spurningu 4, um kostnað ríkissjóðs af því að flytja gæsluvarðhaldsfanga, hann hlýtur að liggja fyrir, það getur bara ekki annað verið, og eins að taka saman tölur yfir það hvað hefur breyst varðandi heimsóknir barna og fjölskyldna fanga sem eru búsettir í öðrum landshlutum og hafa sumir setið inni lengi. Ég hef átt samtöl við fanga sem hafa setið inni á Akureyri og síðan hér fyrir sunnan og það er ólíku saman að jafna. Við höfum sérfræðinga norðan heiða sem ég tel að í öllum tilfellum, flestöllum a.m.k., ættu að geta sinnt því starfi sem þarf að sinna. Sannarlega eru litlar einingar þyngri í rekstri. Það eru hjúkrunarheimili líka úti um alla landsbyggðina sem eru erfiðar í rekstri sökum þess að þær eru litlar en það hefur orðið samfélagsleg sátt um að halda þeim úti. Ég er ekki að líkja þessu saman að öllu leyti (Forseti hringir.) en ég tel þetta ekki til fyrirmyndar. Ég gerði athugasemd við það á sínum tíma og var ekki sátt við þetta fyrirkomulag þegar ráðherra lagði það fram á sínum tíma.