154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

hættumat vegna ofanflóða.

343. mál
[19:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í reglugerð um hættumat vegna ofanflóða og flokkun á nýtingu hættusvæða kveður á um að þegar fyrir liggur staðfest hættumat og viðkomandi hættumatsnefnd hefur lokið störfum en forsendur hafa breyst, svo sem vegna nýrrar þekkingar, breyttra staðhátta, tilkomu varna, skal Veðurstofa Íslands vinna endurskoðað hættumat. Okkur Íslendingum hefur verið skilað hratt í gegnum reynsluskóla náttúruhamfara á síðustu 30 árum. Eftir snjóflóðin 1995 var hraðað hættumati á ofanflóðum og varnargarðar reistir víða um land. Þeir hafa sannarlega sannað gildi sitt en líka höfum við dæmi um að þeir hafi ekki skilað fullnægjandi öryggi.

Hlutverk ofanflóðasjóðs er að vernda byggð og flokkun og nýtingu hættusvæða. Lög og reglugerðir um málið eru skýr og í reglugerðinni um hættumat vegna ofanflóða og flokkun er þetta m.a. sem ég taldi hér upp í fyrstu; að endurskoða skal uppdrætti og rýmingaráætlun er reist eru varnarmannvirki gegn ofanflóðum. Þótt landslagið breytist ekki þá eru aðrar aðstæður sem breytast, loftslagsbreytingar og samfélagslegar aðstæður sem breytast, tækniframfarir verða og einnig þekkjum við að rannsóknir hafa stutt annað heldur en er í fyrirliggjandi hættumati. Það hefur komið í ljós að ekki skapa allir varnargarðar fullnægjandi vörn fyrir byggð og það vekur falskt öryggi auk þess sem það skapar lægra fasteignaverð húseigna vegna ófullnægjandi hættumats.

Búsetuöryggi er mikilvægt íbúum. Að búa við óöryggi getur aukið á kvíða og vanlíðan auk þess sem kortleggja þarf atvinnusvæði líka þar sem fólk dvelur yfir daginn. Sveitarfélögum er bannað með lögum að skipuleggja byggð undir varnarmannvirkjum sem ætlað er að verja viðkomandi svæði þrátt fyrir að möguleiki sé að hættumörk séu undir þeim stöðlum sem miðað er við. Þar sem víða er takmarkað framboð af góðum byggingarlóðum getur dráttur á endurmati komið í veg fyrir að byggt sé á mögulegum lóðum innan byggðar sem getur leitt til enn meiri kostnaðar fyrir sveitarfélögin við að útbúa nýjar lóðir í stað þess að geta nýtt betur þá innviði sem eru til staðar undir þegar byggðum snjóflóðavörnum.

Virðulegi forseti. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður vinnu við endurskoðun hættumats vegna ofanflóða, á þeim svæðum þar sem þegar hafa verið reist varanleg varnarvirki, samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 505/2000?