154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

hættumat vegna ofanflóða.

343. mál
[19:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er akkúrat þetta sem hann kom inn á varðandi endurmat á hættu á Flateyri sem hefur knúið mig hingað upp því að þegar snjóflóðin féllu árið 2020 kom það Önfirðingum öllum í opna skjöldu hverju það áorkaði. Þar er búið að fara fram endurmat og eru áætlanir um að styrkja þær varnir og þess vegna er ég að huga að þessu á öðrum stöðum. Það var einmitt fundur um daginn á Flateyri þar sem var kynnt þessi viðbragðsáætlun samkvæmt nýju hættumati og þetta er bara svo gríðarlega mikilvægt. Ég veit, eins og hæstv. ráðherra benti á, að skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögum og það er á þeirra ábyrgð að skipuleggja ekki byggingarlóðir eða atvinnuhúsnæði á þeim hættumatssvæðum sem eru metin þannig en það er kannski líka þannig að sveitarstjórnir veigra sér við að skipuleggja þegar ekki er búið að endurmeta hættusvæði. Þess vegna held ég að það þurfi að hraða því á þeim stöðum sem þetta er. Við erum að tala um skriðuföll og síðan eru náttúrlega þessir atburðir á Reykjanesskaga, allt kemur þetta inn í. En þetta er mjög mikilvægt. Það kom manni á óvart þótt það hafi verið 20 eða 25 ár á milli flóða eins og á Flateyri hverju það skilaði. En mikilvægi þess að endurmeta, að vera í stöðugu endurmati á þessu hættumati er svo mikilvægt fyrir alla aðila. Þess vegna vildi ég koma hérna og brýna það og spyrjast fyrir um þetta, en enn og aftur þakka ég kærlega fyrir góð svör hjá hæstv. ráðherra.