154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

hættumat vegna ofanflóða.

343. mál
[19:29]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis þakka aftur hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar og hennar orð í þessari umræðu og sömuleiðis þakka ég hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni því að báðir þingmenn koma inn á hið augljósa, sem er samt ekki svo augljóst, að þetta er algjört forgangsmál. Þetta er þjóðaröryggismál og snertir svo sannarlega íbúa viðkomandi svæða en það snertir okkur öll því að það er ekkert okkar sem vill sjá fólk bera skaða af náttúruvá sem verður alltaf og við munum ekki breyta.

Hér hefur komið fram í umræðunni að það skipti máli að þetta sé forgangsmál. Já, það er algjört lykilatriði að þetta sé í algjörum forgangi og það er verk að vinna. Þegar kemur að þessum hefðbundnu ofanflóðum þá erum við kannski hálfnuð miðað við það sem við vitum að við þurfum að gera. En við sjáum líka út af loftslagsbreytingum nýjar ógnir eins og aurskriður og hækkun sjávarborðs. En síðan búum við líka það sem við þekkjum, jarðskjálfta og eldgos, og við vitum að síðasta eldgos á Íslandi er ekki komið. Það liggur alveg fyrir og það er langur vegur frá því, en við vitum hins vegar ekki hvenær það verður. Það sem við vitum er að það skiptir máli að við mælum og vöktum svæði út af allri náttúruvá og þar getum við gert betur. Það hefur verið forgangsmál hjá mér að leggja kraft í það og þess vegna er gott að við erum komin með góðar skýrslur, og ég nefndi þessar þrjár skýrslur hérna áðan sem eru góður grunnur til ákvarðanatöku. Síðan vonast ég til þess að það verði góð samstaða milli okkar um að setja meiri fjármuni í þessa hluti því að hjá því verður ekki komist og það er hagur okkar allra, alveg sama hvar við búum á landinu. En ég ítreka að sveitarfélögin verða alltaf að líta til þessara þátta þegar þau skipuleggja.