154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

innviðir við Jökulsárlón.

418. mál
[19:35]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þrátt fyrir að svæðið við Jökulsárlón sé mjög fjölsótt allan ársins hring er það tiltölulega lítið uppbyggt og samanstendur aðallega af bráðabirgðabyggingum á norðaustursvæði lónsins. Það verður að segjast eins og er að það er ekki sómi að þessu við þessa miklu náttúruperlu, á þessu fallega svæði.

Það var árið 2017 að ríkið varð eigandi að austurhluta Jökulsárlónsins en vestari hluti lónsins er þjóðlenda. Kaupverðið var um 2,2 milljarðar uppreiknað. En það hefur lítið gerst á þessum tíma, á þessum sex árum, þó að unnið hafi verið að bættu aðgengi ferðamanna, t.d. nýlegri uppbyggingu bílastæða bæði austan og vestan megin við ósa lónsins.

Um alllangt skeið hefur Vatnajökulsþjóðgarður unnið að frumathugun um uppbyggingu nauðsynlegra innviða við Jökulsárlón. Fyrir liggja drög að slíkri áætlun þar sem gert er ráð fyrir u.þ.b. 5.000 fermetra byggingu til að hýsa nauðsynlega starfsemi og þjónustu við lónið. Miðað við framangreinda stærð þá liggur fyrir að kostnaður vegna slíkrar uppbyggingar gæti hæglega verið 5–6 milljarðar. Gera má ráð fyrir að stærstur hluti byggingar við lónið myndi hýsa ýmsa þjónustu sem veitt er af öðrum í Vatnajökulsþjóðgarði, svo sem veitinga- og mataraðstöðu, ýmsa ferðatengda þjónustu eins og bátasiglingar, aðstöðu vegna ýmissa ferða sem hafa upphaf við Jökulsárlón, eins og t.d. íshellaferðir, ísklifur, göngur, vélsleðaferðir o.fl.

Með hliðsjón af framangreindu ákváðu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið á síðasta ári að fara í skoðun á öðrum möguleikum sem væru fyrir hendi en þeim að ríkissjóður myndi kosta og standa fyrir uppbyggingu við Jökulsárlón og leigja að því búnu einkaaðilum stærstan hluta byggingarinnar. Skipaður var óformlegur vinnuhópur með fulltrúum beggja ráðuneytanna ásamt framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs. Hópurinn fékk ráðgjafarfyrirtækið Deloitte til að vinna greiningu á rekstrarþáttum við Jökulsárlón. Hlutverk þeirra var m.a. að skoða fjárhagslegar forsendur fyrir uppbyggingunni og vinna að því búnu greiningu á þeim sviðsmyndum sem gætu komið til greina við framtíðaruppbyggingu. Eftir að fyrir lá að fjárhagslegar forsendur gætu verið fyrir aðkomu annarra aðila en ríkisins að uppbyggingunni taldi Deloitte rétt að fara í ákveðna markaðskönnun meðal þeirra aðila sem áhuga gætu haft á uppbyggingunni eða á veitinga- og þjónustusvæðinu. Markaðskönnun er óskuldbindandi ferli sem ætlað er að aðstoða opinbera aðila við mótun á forsendum innkaupaferlis samkvæmt lögum um opinber innkaup.

Markaðskönnunin var auglýst af Ríkiskaupum í byrjun sumars og skiluðu u.þ.b. 30 aðilar inn umsögn um málið. Í október síðastliðnum var ákveðið að bjóða þeim u.þ.b. 30 aðilum sem skiluðu svörum í umræddri markaðskönnun eða sýndu í framhaldi áhuga á málinu til sérstakra viðræðna um tilhögun mála við uppbyggingu við Jökulsárlón. Ráðgjafarfyrirtækið Deloitte hafði umsjón með viðræðunum fyrir hönd ráðuneytanna en framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt formanni svæðisráðs Vatnajökulsþjóðgarðs, sem einnig er bæjarstjóri Hornafjarðar, tóku þátt í umræddum viðræðum við hagaðila.

Nú stendur yfir vinna Deloitte við að greina svör aðila og í framhaldinu mun Deloitte, í samráði við starfshópinn, leggja fram ýmsar sviðsmyndir um það hvernig hægt sé að halda áfram með málið varðandi uppbyggingu og þjónustu við Jökulsárlón. Þegar sú sviðsmyndagreining liggur fyrir munu stjórnvöld þurfa að fjalla um þær leiðir sem hægt er að fara í við uppbygginguna og taka ákvörðun um framhaldið. Leiði sú ákvörðun til þess að rétt sé að fara í útboð á verkefninu yrði það sjálfstæð ákvörðun og nýtt ferli þar sem allir áhugasamir aðilar gætu tekið þátt.

Eins og rakið er að framan situr framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs í óformlegum vinnuhópi ráðuneyta um málið. Þessi undirbúningsvinna sem átt hefur sér stað var sérstaklega kynnt á stjórnarfundi í Vatnajökulsþjóðgarði af fulltrúa umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis í lok ágúst á þessu ári þar sem bæjarstjóri Hornafjarðar var jafnframt viðstaddur. Eins og fram kom hefur bæði framkvæmdastjóri þjóðgarðsins og bæjarstjórinn setið fundi vegna markaðssamtals. Ekki liggur fyrir nein ákvörðun um það á þessu stigi hvernig staðið verður að uppbyggingu við Jökulsárlón enda ekki búið að móta forsendur uppbyggingarinnar. Þegar sviðsmyndir liggja fyrir munu þær miða við mismunandi forsendur fyrir uppbyggingu fasteigna á þjónustusvæðinu. Ekki liggja því fyrir neinar ákvarðanir í málinu. Þegar sviðsmyndirnar liggja hins vegar fyrir með skýrum hætti verður hægt að taka málið áfram til frekari ákvarðana af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda. Horft verður til þess að umrædd uppbygging efli heimabyggð í samræmi við lög um Vatnajökulsþjóðgarð innan þeirra almennu takmarkana sem lagareglur um innkaup og útboð ríkisins setja slíku vali.

Ég er alveg sammála því að það skiptir ekki bara máli að sá góði staður, Höfn í Hornafirði, njóti þessa heldur held ég að þarna sé mjög gott tækifæri til að dreifa ferðamönnum austur. Hv. þingmaður þarf ekkert að fara yfir mikilvægi þess að hafa stjórn og að heimamenn fái að njóta þess sem þjóðgarðurinn hefur upp á að bjóða og njóta þeirra umsvifa. Það hefur verið gegnumgangandi í öllu mínu starfi og ég vek nú athygli á því að ég flutti t.d. lögheimili þjóðgarðsins aftur heim, til Hafnar í Hornafirði frá Garðabæ en hann hafði ekki verið þar áður. Það hefur verið mín áhersla og verður mín áhersla.