154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

innviðir við Jökulsárlón.

418. mál
[19:43]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Hv. þingmaður vísaði til þeirra áherslna sem ég hef sem eru mjög skýrar og hafa ekki bara komið fram í því að ég skyldi flytja þjóðgarðinn aftur heim — eða ekki aftur, hann var þar aldrei, hann var alltaf á höfuðborgarsvæðinu, fyrst var hann held ég með skrifstofu í 101 Reykjavík og síðan var hann settur í Garðabæ. Hv. þingmaður sagði: Þó það nú væri. En það var ekki fyrr en að ég flutti hann þangað sem það gerðist.

Í frumvarpi sem ég vona að verði fjallað um hér, um sameiningu stofnana sem snúa að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum, þá er það alveg skýrt að ef menn ætla að stofna þjóðgarð þá verði þrír í stjórn, þannig er það í frumvarpsdrögunum, tveir frá sveitarfélögunum og einn frá ráðherra. Það er ekkert sjálfsagt, þetta hefur ekki verið þannig. Ein helsta gagnrýnin sem kom á hálendisþjóðgarðinn var að það átti að stýra honum frá Reykjavík. Þannig að ég hef ekki bara talað, ég er að framkvæma og þetta er mín áhersla og hún mun ekkert breytast.

Það liggur hins vegar alveg fyrir að við þurfum í okkar störfum að fara eftir lögum og reglum og líka alþjóðlegum skuldbindingum og mér sýnist nú að ef það verður farið í útboð, af því að hv. þingmaður spyr mig hvernig ég ætli að meta þetta og það er ekki enn þá búið að taka ákvörðun um það eða hvaða leið verði farin, þá verðum við auðvitað að fara eftir þeim lögum og reglum sem okkur ber að fara eftir. Það breytir því ekki að markmiðið er alveg skýrt, að efla og styrkja byggð á þeim svæðum þar sem eru þjóðgarðar og friðlýst svæði. En ég vek athygli á því að lítið hefur gerst þarna og ég held að fólk, sérstaklega fólk á þessum svæðum, hafi misst þar af miklum tækifærum. Við sjáum það að á meðan uppbyggingin er ekki til staðar, eins og hún er núna, þá er býsna algengt að menn keyri bara beint til lónsins frá Reykjavík og til baka á hverjum degi sem mér finnst ekki vera góð ferðamennska. Ég myndi vilja að fólk myndi dvelja þar lengur og njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða og fari síðan líka austar. Þannig dreifum við ferðamönnum (Forseti hringir.) því þegar við skoðum hvar ferðamenn eru á landinu þá er það algjört markmið í sjálfu sér að dreifa þeim víðar.