154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

Störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Sum orð veljum við algerlega spari. Mennska held ég að sé eitt af þeim. Mennska er andheiti við kaldlyndi og grimmd. Þegar voðaverk eiga sér stað, þegar mannfólkið fer út af sporinu, fremur einhverja glæpi gegn mannúðinni, þá er það mennskan sem lét undan. Þess vegna er dálítið sláandi að heyra það að þegar hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra talar um sitt nánasta samstarfsfólk í stjórnmálum, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þá segist hann vonast til þess að þau fari að breyta betur vegna þess að hann trúi á mennskuna í fólki. Er eðlilegt að gagnálykta að ef ekki þá séu þetta ómenni sem eru með hæstv. ráðherra í ríkisstjórn? Sé svo þá ætti ráðherrann kannski að endurskoða stjórnarmynstrið. Tilefnið er náttúrlega þessi tregða Sjálfstæðisflokksins við að ganga í verkið og fullnusta fjölskyldusameiningar fólks frá Gaza.

Það er ótrúlegt að fylgjast með umræðum síðustu daga. Fréttastofa RÚV fletti ofan af því að það var ekki rétt sem fram kom hjá ríkisstjórninni að ekkert Norðurlandanna væri að hjálpa til við fjölskyldusameiningar. Nei, nei, það er allt í lagi, segir dómsmálaráðherra, vegna þess að þau eru að afgreiða fólk til landsins sem sótti um fyrir 7. október. Sama er nú með fólkið sem á ættingja hér á Austurvelli að mótmæla, þetta er fólk sem sótti um síðasta vor en vegna þess að Útlendingastofnun dregur lappirnar í öllum réttlætismálum þá er styttra síðan umsóknir þess voru samþykktar. (Forseti hringir.) Hvers vegna sagði hæstv. utanríkisráðherra í desember að fjölskyldusameiningar væru í forgangi en nú er kominn febrúar og þeim hefur ekki verið lokið? (Forseti hringir.)

Forseti. Það að ríkisstjórnin tali í kross í jafnmiklu grundvallarmannréttindamáli og hér um ræðir er ólíðandi (Forseti hringir.) og ef einhver ráðherra ríkisstjórnarinnar ætlar að halda í ögn af sinni mennsku, sama hvaða flokki þeir eru í, þá geta þau ekki látið eins og þau beri ekki öll ábyrgð á þessu aðgerðaleysi.

(Forseti (BÁ): Forseti verður að minna á að ræðutími í þessum dagskrárlið, störfum þingsins, er aðeins tvær mínútur.)