154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

vopnalög.

349. mál
[14:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998. Ég flyt þessa framsögu í fjarveru framsögumanns, hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur. Ég vil byrja á því að rifja upp að málinu var vísað á ný til allsherjar- og menntamálanefndar á milli 2. og 3. umræðu. Það var gert m.a. til að rýna breytingartillögu nefndarinnar frekar, einkum tillögur varðandi safnvopn. Skemmst er frá því að segja að niðurstaða meiri hluta nefndarinnar varð að falla frá þeirri breytingartillögu sem fram var komin við 2. umræðu varðandi safnvopnin.

Nú sný ég mér að nefndarálitinu sem liggur frammi. Nefndin fjallaði um málið á ný og fékk á sinn fund gesti eins og gert er grein fyrir í umræddu nefndaráliti. Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á vopnalögum þannig að ekki verði lengur veittar undanþágur frá banni við innflutningi á hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum á grundvelli þess að um safnvopn sé að ræða. Þá verði reglum um skráningar skotvopna breytt þannig að ávallt sé tryggt að skráður verði eigandi eða ábyrgðarmaður hvers vopns. Jafnframt er lagt til að skotvopn verði geymd í sérútbúnum skáp sem og að ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2021/555 um eftirlit með öflun og eign vopna verði innleidd í íslenskan rétt á grundvelli Schengen-samstarfsins.

Eins og áður sagði var málinu vísað til nefndar á milli 2. og 3. umræðu. Nefndin fjallaði á ný um málið og fékk til sín gesti. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hlutinn árétta sérstaklega eftirfarandi atriði, sem lúta að banni við innflutningi á hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum sem safnvopnum. Með frumvarpinu var m.a. lagt til að núgildandi ákvæði 2. málsliðar 7. mgr. 5. gr. vopnalaga um undanþágu frá banni við innflutningi á sjálfvirkum og hálfsjálfvirkum skotvopnum á grundvelli söfnunar falli brott. Ákvæðið mælir fyrir um að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu geti, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, heimilað innflutning slíkra vopna hafi þau ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs þeirra eða tengsla við sögu landsins. Með frumvarpinu er tekið fyrir þessa heimild en á hinn bóginn verður áfram heimilt, með leyfi lögreglustjóra, að flytja inn hálfsjálfvirkar skammbyssur og hálfsjálfvirka riffla séu vopnin sérhönnuð og sannanlega ætluð til íþróttaiðkunar.

Nefndin tók til skoðunar hvort rétt væri að heimila áfram innflutning hálfsjálfvirkra skotvopna með vísan til söfnunargildis þeirra og að ströngum skilyrðum uppfylltum, svo sem vegna aldurs þeirra og tengsla við sögu landsins eins og í tengslum við hernámsliðið á Íslandi í síðari heimsstyrjöld. Við nánari athugun málsins telur meiri hlutinn á hinn bóginn ljóst að ekki sé tímabært eins og sakir standa að heimila áfram innflutning á hálfsjálfvirkum skotvopnum í söfnunarskyni. Að mati meiri hlutans er afar brýnt að sporna gegn auknum innflutningi sjálfvirkra og hálfsjálfvirkra skotvopna með vísan til þeirra röksemda sem raktar eru í greinargerð með frumvarpinu. Þá telur meiri hlutinn jafnframt nauðsynlegt að bregðast við þeim ábendingum sem fram komu í áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2019 um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi og ábendingum í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá 2021 um fjölgun slíkra vopna.

Við umfjöllun málsins kom fram, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að fyrirhuguð er heildarendurskoðun vopnalaga og er hún að einhverju leyti hafin. Í ljósi þess beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að taka mið af framkomnum sjónarmiðum umsagnaraðila um að heimila innflutning á safnvopnum og kanna vandlega við fyrirhugaða heildarendurskoðun laganna hvort tilefni sé til að leyfa takmarkaðan innflutning slíkra vopna á grundvelli skýrt afmarkaðra undanþáguheimilda. Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að komi til þess að leyfa slíkan innflutning verði það gert að vel athuguðu máli og að viðhöfðu ítarlegu samráði við löggæsluyfirvöld og hagsmunaaðila, líkt og félög vopnasafnara. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar nefndarinnar um málið í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar við 2. umræðu.

Þá að breytingartillögum meiri hlutans. Við 2. umræðu málsins voru breytingartillögur á þskj. 754 og 755 kallaðar aftur og komu ekki til atkvæða. Málinu var í kjölfar vísað til nefndarinnar líkt og rakið hefur verið og nú leggur meiri hlutinn til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

Í fyrsta lagi eru breytingar er lúta að samræmingu orðanotkunar um viðurkennd skotfélög annars vegar og viðurkennd skotíþróttafélög hins vegar. Rætt var um þessa hugtakanotkun um mismunandi félög samkvæmt frumvarpinu. Í samráði við dómsmálaráðuneytið telur meiri hlutinn að betur fari á því að samræma hugtakanotkun yfir viðurkennd skotfélög og viðurkennd skotíþróttafélög svo að eingöngu verði mælt fyrir um viðurkennd skotfélög. Leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis.

Þá leggur meiri hlutinn í öðru lagi til breytingar er lúta að orðalagi í lögum nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum, en í 32. gr. frumvarpsins eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um skipti á dánarbúum og á erfðalögum. Í umsögn sýslumannaráðs eru lagðar til nokkrar minni háttar orðalagsbreytingar á lögum um skipti á dánarbúum í því skyni að samræma heiti stofnana, gæta að réttri hugtakanotkun og auka skýrleika ákvæðanna. Meiri hlutinn tekur undir þessar ábendingar, telur þessar breytingar vera til bóta og leggur þær því til. Að auki eru lagðar til breytingar sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringa.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til á þskj. 990.

Undir nefndarálit þetta rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, formaður nefndar og framsögumaður, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Brynhildur Björnsdóttir, Dagbjört Hákonardóttir og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég ítreka að málinu var vísað til allsherjar- og menntamálanefndar á milli 2. og 3. umræðu. Það var gert til að rýna breytingartillögu nefndarinnar frekar, einkum varðandi safnvopn. Niðurstaða meiri hlutans varð að falla frá þeirri breytingartillögu sem áður hafði verið lögð fram varðandi safnvopnin en leggja í stað þess áherslu á að dómsmálaráðuneytið tæki mið af framkomnum sjónarmiðum umsagnaraðila um að heimila innflutning á skotvopnum og kanna vandlega við fyrirhugaða heildarendurskoðun laganna hvort tilefni sé til að leyfa takmarkaðan innflutning slíkra vopna á grundvelli skýrt afmarkaðra heimilda.