154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

609. mál
[14:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd meiri hluta hv. velferðarnefndar mæli ég fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023. Ég mæli fyrir þessu nefndaráliti í fjarveru framsögumanns meiri hluta, hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur.

Frumvarpið felur í sér að tímabil launastuðnings samkvæmt lögunum verði lengt til loka júní, til 30. júní næstkomandi. Samhliða er lagt til að umsóknarfrestur um stuðning samkvæmt lögunum verði framlengdur til loka september.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund góða gesti frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir mikilvægi þess að afkoma þeirra sem ekki geta sótt atvinnu í Grindavík vegna aðstæðna verði áfram tryggð með lengingu stuðningstímabils til loka júnímánaðar.

Undir álit meiri hluta velferðarnefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Magnús Árni Skjöld Magnússon, Ásmundur Friðriksson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður og framsögumaður, Sigþrúður Ármann, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Óli Björn Kárason. Þá er Guðbrandur Einarsson áheyrnarfulltrúi jafnframt samþykkur áliti þessu.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég geta þess að eftir afgreiðslu málsins barst nefndinni ábending eða ósk um að sá sem fær greiddan stuðning samkvæmt lögunum og frumvarpinu geti fengið heimild til að óska eftir því að halda áfram að greiða til stéttarfélags, eins og dæmi eru um í sambærilegum greiðslum frá Vinnumálastofnun. Í þeim tilfellum sér Vinnumálastofnun um að koma greiðslunni til hlutaðeigandi stéttarfélags. Því má vænta þess að við þessari ábendingu verði brugðist af hálfu nefndarinnar við 3. umræðu málsins. Þó er ekki, hæstv. forseti, verið að óska eftir því að málið gangi til nefndar á milli umræðna.