154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

barnaverndarlög og félagsþjónusta sveitarfélaga.

497. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar mæli ég fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og það geri ég fyrir hönd framsögumanns, Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur.

Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að skýra ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra þegar kemur að reglugerðum sem varða gæði þjónustu sem lýtur eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Þannig felur frumvarpið í sér afmarkaðar breytingar á barnaverndarlögum og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga í því skyni að tryggja að sá ráðherra sem fer með mál er varða barnavernd og málefni barna og ungmenna samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga hafi viðeigandi heimildir til að setja reglugerðir á því málefnasviði sem undir hann heyrir.

Nefndin hefur fjallað um málið og meiri hluti nefndarinnar styður frumvarpið og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Undir álit meiri hluta velferðarnefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Óli Björn Kárason. Þá er Guðbrandur Einarsson áheyrnarfulltrúi jafnframt samþykkur áliti þessu.