154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

loftslagsmál.

21. mál
[14:32]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Forseti. Það ríkir neyðarástand í loftslagsmálum en það segir ekki alla söguna. Neyðarástand í loftslagsmálum er pólitískt ástand. Neyðarástandið er það að stjórnvöld um allan heim taka loftslagsvandann ekki nógu alvarlega og keppast meira að segja um að velta vandanum sín á milli þegar gengið er á þau. Þannig birtist þetta neyðarástand í því að þegar íslenskir ráðherrar eru spurðir út í lítinn árangur sem náðst hefur á Íslandi þá er fyrsta viðbragð að segja: Það er bara lítill árangur að nást í öllum löndum, um allan heim. Við verðum að staldra við og horfast í augu við að íslenskum stjórnvöldum er ekki að takast að ná þeim árangri sem íslenskt samfélag getur náð. Við því verður að bregðast.

Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir í dag er hugmynd að hluta af því viðbragði sem nauðsynlegt er. Hér er lagt til að bregðast við neyðarástandi í loftslagsmálum með því að gera stjórnvöldum betur kleift og gera þeim það hreinlega skylt að takast af alvöru á við loftslagsvána. Núverandi kerfi, núverandi lagaumhverfi, tryggir ekki þann stigvaxandi og mikla þunga sem einkenna þarf stefnumörkun og allar aðgerðir stjórnvalda til að ná markmiði Parísarsamningsins um að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C. Hér er lagt til að bæta þar úr með þremur meginaðgerðum.

Í fyrsta lagi eru markmið laga um loftslagsmál uppfærð þannig að í þeim birtist grunnur að heildstæðri loftslagsstefnu Íslands, en hana vantar í rauninni í dag. Felst það í að lögfesta markmið um 70% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, flýta markmiði um kolefnishlutleysi til ársins 2035 og fela stjórnvöldum að setja sjálfstæð markmið um bindingu kolefnis, bæði með lífrænum ferlum og iðnaðarferlum.

Í öðru lagi er lagt til að gera stjórnvöldum skylt að grípa til aðgerða í loftslagsmálum og að þau skuli ávallt gera grein fyrir því hvort aðgerðir og áætlanir séu í samræmi við loftslagsmarkmið.

Í þriðja lagi er lagt til að auka gagnsæi og styrkja opinbera umræðu, afrugla hana, með því að fela ráðherra að leggja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir Alþingi til afgreiðslu, leggja fram ársskýrslu um loftslagsmál samhliða framlagningu fjárlaga hvers árs og gera grein fyrir loftslagsáhrifum fjárlagafrumvarps.

Þetta frumvarp snýst náttúrlega um að nauðsyn þess að ríki heims grípi til róttækra aðgerða gegn loftslagsbreytingum hefur aldrei verið meiri. Hérna gæti Ísland verið í fararbroddi en til að svo megi vera þarf að setja metnaðarfyllri markmið en ríkisstjórnin hefur gert. Auka þarf gagnsæi við allar áætlanir sem eru gerðar til að ná þeim markmiðum og tryggja þarf að stjórnvöld starfi alltaf í samræmi við loftslagsmarkmið. Með því að samþykkja þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi myndi Ísland skipa sér í hóp með þeim ríkjum sem segjast ekki bara ætla að sýna metnað í loftslagsmálum heldur þora að leggja þær aðgerðir í dóm óháðra sérfræðinga, auðvelda almenningi að dæma aðgerðirnar svo að það leiki ekki vafi á að metnaðurinn sé jafn mikill í orði og á borði.

Forseti. Ég ætla að fara yfir þessa ólíku þætti frumvarpsins í aðeins lengra máli. Í fyrsta lagi varðandi uppfærð markmið laganna þannig að þar birtist heildstæð loftslagsstefna. Við leggjum til að taka skýrt fram að markmiðið sé hið sama og birtist í Parísarsamningnum, að markmið laga um loftslagsmál sé að Ísland vinni að því markmiði Parísarsamningsins að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C. Í því skyni er lagt til í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins að festa í lög ólíka þætti sem geta unnið að þessu heildarmarkmiði Parísarsamningsins. Þar er lagt til að Ísland skuli ná kolefnishlutleysi eigi síðar en 2035. Markmið um kolefnishlutleysi er í rauninni í dag eina tölulega markmið laga um loftslagsmál en árið 2021 var því bætt inn, í samræmi við stefnu þáverandi og núverandi ríkisstjórnar, að miðað yrði við að kolefnishlutleysi verði náð árið 2040. Hér er lagt til að færa það nær okkur í tíma, sem rímar ágætlega við þann áskilnað Parísarsamningsins um að metnaður skuli sífellt vaxa eftir því sem lengra dregur í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Þetta markmið, ártalið 2035, er sambærilegt því sem sett hefur verið í Finnlandi. Hér væri Ísland því ekki eina landið til að stefna á þennan tímapunkt.

Þá er lögfest markmið um það sem mætti kalla áfanga á leið að kolefnishlutleysi, nokkuð sem núverandi ríkisstjórn hefur verið ófáanleg til að festa í lög. Svo óskiljanlegt sem það er hefur meira að segja verið felld í þingsal tillaga um að lögfesta einfaldlega það markmið sem ríkisstjórnin hefur samþykkt á alþjóðavettvangi að hún ætli að uppfylla fyrir árið 2030, sem er engan veginn nógu metnaðarfullt. Meira að segja sú tillaga var felld hér í þingsal. Í frumvarpinu er lagt til að auka metnaðinn töluvert, vegna þess að það skiptir máli að ná samdrætti í losun sem fyrst. Hvert tonn af losun sem við komum í veg fyrir á þessu ári skiptir miklu meira máli í stóra samhenginu en hvert tonn sem komið er í veg fyrir að losni út í andrúmsloftið árið 2029.

Hér er lagt til að draga úr losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum um 70% fyrir árið 2030 en núverandi markmið stjórnvalda er enn sem komið er óskilgreind hlutdeild í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins, Íslands og Noregs um 55% samdrátt í losun. Það hefur verið gagnrýnt af ýmsum náttúruverndarsamtökum fyrir að vera ekki nógu metnaðarfullt markmið. Þannig áætlaði Greenpeace t.d., þegar Evrópusambandið var að semja um það sem endaði sem 55% sameiginlegt markmið, að 65–70% yfir álfuna væri eðlilegra viðmið og eðli máls samkvæmt þyrftu þau ríki sem betur standa að standa skil á meiru. Það er eðlilegt að auðugri ríki líti til þess að ná einhverju meira en meðaltalinu og 70% sjálfstætt markmið um samdrátt í losun er t.d. eitthvað sem Landvernd, Ungir umhverfissinnar og Náttúruverndarsamtök Íslands skoruðu á stjórnvöld að setja sem sjálfstætt markmið í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP26 fyrir rúmum tveimur árum. Til samanburðar eru ríki Evrópu ekki bundin af lágmarksmarkmiði Evrópusambandsins heldur er þeim frjálst að setja sér metnaðarfyllri markmið sjálf. Þannig hefur Danmörk til að mynda sett sér það sama markmið og lagt er til að lögfesta hér fyrir árið 2030.

Í c- og d-lið 1. gr. frumvarpsins eru ákvæði um bindingu kolefnis. Þessi uppstilling frumvarpsins er til þess hugsuð að undirstrika mikilvægi þess að horfa á þetta sem aðskilda hluti, að ná þurfi samdrætti í losun og markmiðum um bindingu en ekki megi falla í þá freistni að líta á bindingu sem einhverja einfalda og ódýra leið til að komast hjá því að ná samdrætti í losun. Það þarf að gera hvort tveggja. Markmið um bindingu eru hér annars vegar sett fram sem áhersla á náttúrlegar lausnir, endurheimt votlendis og annað slíkt sem þarf að vera skýr þáttur í loftslagsstefnu Íslands. Síðan á að styðja við þróun á tæknilausnum, þar sem fólk þekkir kannski einna helst dæmi eins og Carbfix uppi á Hellisheiði. Hér eru hins vegar ekki lögð til töluleg viðmið, ólíkt hinum liðunum, þar sem enn er óvíst hversu mikið megi telja fram í alþjóðlegar skuldbindingar. Aðferðafræði við útreikning er enn á reiki. Rannsóknir þurfa að eiga sér stað og síðan samningaviðræður við alþjóðlega samstarfsaðila. En sama hversu mikið hægt er að fá út úr þessu í einhverju alþjóðlegu bókhaldi eru þetta aðgerðir sem skipta máli og því er mikilvægt að koma þeim á blað.

Að lokum er síðan lagt til að grípa til aðgerða til að laga samfélagið að þeim afleiðingum loftslagsbreytinga sem óhjákvæmilega verða þrátt fyrir að samdráttur náist í losun, einfaldlega vegna þess að jörðin er komin yfir ákveðin mörk að ýmsu leyti. Jafnvel þótt markmiðum um samdrátt verði náð hefur aðgerðaleysi síðustu áratuga nú þegar skilað okkur á þann stað að breytingar hafa orðið á loftslagi jarðar sem við þurfum að horfast í augu við sem samfélag og bregðast við því sem þær geta leitt af sér hér á landi.

Þetta var yfirferð um fyrsta hluta frumvarpsins sem snýr að því að uppfæra markmið loftslagslaga.

Þá langar mig að víkja örstutt að öðrum hluta frumvarpsins sem snýst um að gera stjórnvöldum skylt að grípa til aðgerða í loftslagsmálum. Það er dálítið ný hugsun í þessum málaflokki en snýst í rauninni um það að lögin fari að endurspegla hversu brýnt það er að stjórnvöld grípi til aðgerða og að þær aðgerðir þurfi að viðhalda sér óháð allri stefnumörkun stjórnmálaflokka, megi ekki sveiflast eins og lauf í vindi. Í því skyni sé nauðsynlegt að festa í lög skyldu stjórnvalda til þess að halda áfram fram á við. Þannig getum við komist nær því að tryggja árangursríkar aðgerðir í loftslagsmálum óháð því hvort metnaður ríkisstjórnar sveiflist til eða frá eftir pólitískri samsetningu hennar hverju sinni, þó að á endanum séu það að sjálfsögðu kjósendur sem stýri því hversu metnaðarfullar ríkisstjórnir við fáum.

Jafnframt er lagt til ákvæði um að stjórnvöld skuli tryggja í hvers konar aðgerðum og áætlunum sem settar eru að þar sé unnið í samræmi við markmið loftslagslaganna. Hér er því lagt til að lagaramminn endurspegli að loftslagsmál þurfi að samþætta við allt sem hið opinbera gerir. Svona skylda hefur verið leidd í lög í öðrum löndum og almennt talið að hún hafi veitt mikilvægt aðhald til að tryggja framfylgni stjórnvalda við markmið sín. Hins vegar eru kannski færri dæmi um deilumál sem rata alla leið til dómstóla, þó að það sé engu að síður mikilvægt úrræði fyrir félagasamtök og aðra hagsmunaaðila til að tryggja að stjórnvöld séu að framkvæma í samræmi við yfirlýstan vilja sinn til árangurs. Kannski er nærtækast að líta austur um haf til Noregs þar sem nú stuttu eftir áramót féll dómur í hæstarétti þar sem hópur ungmenna með liðsstyrk náttúruverndarsamtaka sótti ríkið til saka vegna þess að það hélt áfram útgáfu leyfa til olíu- og gasleitar, þrátt fyrir að norska ríkið haldi því fram að það vilji sýna mikinn metnað í loftslagsmálum. Þetta töldu ungmennin ekki geta samræmst því og gengi þar að auki á rétt þeirra sem komandi kynslóða til heilnæms umhverfis. Upp úr áramótum féll dómur gegn norska ríkinu og verður áhugavert að sjá hvernig mál munu þróast í framhaldinu.

Svo er það þriðji hluti frumvarpsins sem snýr að því að auka gagnsæi og styrkja opinbera umræðu um loftslagsmál. Þetta held ég að skipti gríðarlegu máli vegna þess að við þekkjum það öll í þessum sal þegar við tökum þátt í umræðum um loftslagsmál, hvort sem það er hér eða annars staðar á hinum pólitíska vettvangi, eða annars staðar í samfélaginu, að þetta er gríðarlega flókinn málaflokkur. Það er auðvelt að velja tölur sem henta málstað hvers og eins þannig að allir komi einhvern veginn út sem sigurvegari umræðunnar en eftir stendur kannski einhver hlustandi sem veit ekkert hverju hann var að fylgjast með, veit ekki hvort það sé rétt hjá ráðherra umhverfismála að ríkisstjórnin sé brjálæðislega metnaðarfull eða hjá einhverjum stjórnarandstöðuþingmanni sem dregur fram tölur frá Umhverfisstofnun til að sýna að ríkisstjórnin sé ekki að ná árangri í samræmi við þann metnað sem hún segist vera með. Hvoru á fólk þá að trúa? Hér þarf einfaldlega verkfæri til að aðstoða almenning.

Það fyrsta sem er lagt til er að breyta því hvernig aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er unnin, m.a. verði lögfest að hún komi hingað til umræðu á þingi en sé ekki bara eitthvert stefnuskjal sem er afgreitt af ráðuneytinu, vegna þess að sú umræða sem á sér stað í þingsal og í nefndum skiptir miklu máli til þess að eignarhaldið á þessu grundvallarplaggi sé meira. Líka er lagt til að flýta því ferli. Lagt er til að ráðherra beri að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eigi síðar en sex mánuðum eftir að ríkisstjórn hefur verið mynduð. Núverandi ríkisstjórn sýnir ágætlega þörfina á þessu með því að nú, rúmum tveimur árum eftir að til hennar var stofnað, er þessi aðgerðaáætlun enn ekki komin fram. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var síðast unnin og birt af ráðuneytinu á vordögum 2020 og því er löngu kominn tími á að uppfæra hana, þótt ekki væri nema vegna þess að ríkisstjórnin er í millitíðinni búin að undirgangast metnaðarfyllri skuldbindingar Evrópusambandsins. Evrópusambandið jók metnað sinn úr 40% samdrætti upp í 55% en hér er enn spilað eftir gamla handritinu.

Það er ákveðið áhyggjuefni að þegar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra svaraði fyrirspurn á síðasta löggjafarþingi varðandi uppfærslu aðgerðaáætlunarinnar vísaði hann í að lög gerðu kröfu um að aðgerðaáætlunin væri uppfærð á fjögurra ára fresti. Nú stefnir allt í að hann ætli að fullnýta sér þann frest og verða fjögur ár liðin í vor. Það er ekki merki um mikinn metnað að gera hluti eins seint og hægt er. Þetta tel ég eitt af þeim dæmum um hversu vanbúin þessi ríkisstjórnin er til að ná raunverulegum árangri í þessum málaflokki.

Svo er lagt til í þessu frumvarpi að samhliða framlagningu frumvarps til fjárlaga skuli ráðherra leggja fram það sem við köllum í frumvarpinu ársskýrslu um stöðu aðgerða í loftslagsmálum. Þar skuli koma fram m.a. hvernig stjórnvöld ætla að ná fram markmiðum laga um loftslagsmál. Þar verði jafnframt gerð grein fyrir loftslagsáhrifum fjárlagafrumvarpsins. Þar með verðum við komin með eitthvert grunnplagg sem hægt væri að tala út frá, sem kveðið er á um að ráðherra ræði sérstaklega í þingsal, og myndum með þessu tryggja reglulega og gagnrýna umræðu um aðgerðir stjórnvalda og reglubundið og öflugt aðhald Alþingis með framkvæmdarvaldinu í þessum gríðarlega mikilvæga málaflokki.

Hér er ekki verið að finna upp hjólið frekar en annars staðar í þessu frumvarpi. Frumvarpið gengur almennt út á að taka þær bestu hugmyndir sem við höfum fundið í nágrannalöndunum og steypa þeim saman í eitthvað sem myndar skynsamlega heild fyrir íslenskt samfélag. Ákvæði um ársskýrslu um loftslagsmál er að finna í norskum lögum um loftslagsmarkmið sem tóku gildi árið 2018. Ég verð að viðurkenna að þegar ég sá í fyrsta sinn norsku skýrsluna sem kom út samhliða fjárlagafrumvarpi þar í landi þá fylltist ég dálítilli öfund. Þetta var doðrantur þar sem var farið mjög hreinskilnislega yfir stöðu mála. Þó að þarna væri skýrsla sem unnin var af stjórnvöldum og fylgdi þeirra stjórnarfrumvarpi til þingsins bar hún með sér að það væri ekki endilega verið að sópa yfir eða reyna að fela hluti heldur væri hugmyndin að þarna væri heiðarleg framsetning til þess að umræðan gæti orðið góð.

Þetta tæmir nokkurn veginn það sem ég hef að segja um frumvarpið. Eins og forseti hefur kannski tekið eftir eru þetta frekar litlar og einfaldar breytingar á lögum um loftslagsmál, örlítið meiri kvaðir á stjórnsýslu. Frumvarpið snýst hins vegar allt um það að stjórnvöld geri það sem þau á hátíðisdögum segja að þau vilji gera og að þau séu ekkert feimin við að mæta hér í þingsal og standa skil á árangri þeirra aðgerða. Þar þurfum við svo sannarlega að bæta í, ekki bara vegna þess að við þurfum að vinna sigur á loftslagsvánni sem einhverjum neikvæðum andstæðingi heldur líka vegna þess að aðgerðir sem gripið er til í því skyni vinna ekki bara á loftslagsbreytingum heldur hafa þær eiginlega allar jákvæð hliðaráhrif. Allar aðgerðir í loftslagsmálum, ef þær eru almennilega unnar og settar fram á réttan hátt, vinna að því að byggja upp betra samfélag til framtíðar. Þarna verður öll sköpun verðmæta á næstu árum og áratugum. Þarna verður öll uppbygging velsældar í framtíðinni. Þess vegna skiptir máli að stjórnvöld og við öll hugsum stórt til framtíðar, fyrir jörðina og fyrir komandi kynslóðir.