154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[16:22]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér m.a. til að fagna þessari tillögu sem ég held að sé mjög mikilvægt innlegg óháð því hvað kann að vera í mótun í ráðuneyti heilbrigðismála eins og hv. þm. Sigmar Guðmundsson kom inn á. Ég held að það sé mikilvægt að við ræðum einmitt stefnu og heildarsýn í forvörnum í áfengis- og vímuvarnamálum hér í þinginu. Mig langar í því ljósi að spyrja hv. þingmann hvort hann þekki til skýrslu eða skjals Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, á íslensku mætti þýða heiti hennar þannig: Að minnka áfengisflæðið, bakgrunnsskjal með ábendingum um evrópskan ramma um forvarnir í áfengismálum 2022–2025. Þar eru dregnir fram sex þættir og undir hverjum eru ábendingar og ráðleggingar um aðgerðir á hverju sviði eða undir hverjum þætti. Þessir sex þættir eru verðlagning áfengis, takmarkað aðgengi að áfengi, takmörkun á markaðssetningu áfengis, upplýsingar um skaðsemi áfengis, m.a. með viðvörunarmerkingum á vörum, og svo eru viðbrögð og þjónusta heilbrigðiskerfisins og síðan samfélagslegar aðgerðir. Undir hverjum af þessum sex þáttum eru mjög margar mikilvægar ábendingar en líka lögð áhersla á að það þarf að horfa á þessa sex þætti heildstætt og aðgerðirnar undir þeim. Við þurfum að vera að vinna á öllum þessum sviðum. Þess vegna spyr ég: Hvernig getum við bætt okkur hér á þinginu við að horfa á alla þessa þætti við okkar ákvarðanatöku í ólíkum málefnum?