154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[16:58]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég heiti Dagbjört og ég er aðstandandi. Ég vil þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni kærlega fyrir tímabæra og lífsnauðsynlega umræðu í kringum vandaða tillögu til þingsályktunar. Við segjum oft að þetta varði okkur öll en í þetta skiptið gerir það það svo sannarlega. Við erum auðvitað hérna á stóru nótunum og við erum líka á persónulegu nótunum og ég ætla að nota tækifærið til að ávarpa það að það er mjög þungbært fyrir einstakling að vera í sporum aðstandanda því að þetta eru yfirleitt börn. Ég hef unnið talsvert með ungum einstaklingum sem hafa þessa reynslu á bakinu eða þurfa hreinlega að kljást við það í sinni daglegu tilveru að eiga aðstandanda, hvort sem það er foreldri eða náið skyldmenni, sem hefur ekki stjórn á þessum þætti lífsins, er að kljást við fíkn. Það er eitthvað nöturlegt sem vaknar í hjartanu manns þegar þessir einstaklingar lýsa því hvernig það er að vera með sinn kærasta og nánasta vin, eða skyldmenni, maka, sem hefur misst alla tiltrú á lífinu, er í lífshættu og er þá sjálfum sér hættulegastur. Þar mæta ekki neinar dyr nema lokaðar.

Við stöndum frammi fyrir því að það er — kannski bara til að lýsa því aðeins fyrir þeim sem ekki þekkja til að þá erum við sem sagt með ákveðin úrræði, vissulega, það eru til ákveðin bráðaúrræði sem eiga að geta gripið fólk í alvarlegri stöðu. Hérna get ég t.d. nefnt bráðamóttöku geðdeildar. Þegar fíkn ber á góma, þ.e. viðkomandi er fíknisjúklingur og á að vera viðfangsefni heilbrigðisgeirans, heilbrigðiskerfisins, þá er oftar en ekki ekki annað hægt að gera af hálfu þeirra sem þar starfa en að segja: Þetta er leiðinlegt en þetta er bara svona. Við verðum að senda ykkur heim. Við vitum það alveg að þetta er í fyrsta lagi ekki rétt. Það er ýmislegt hægt að gera en það er mannanna verk að ákveða að svo sé ekki og mjög oft fer þetta á versta veg, kannski ekki þann sólarhringinn en í lok dags eða í lok ákveðins vítahrings.

Við þekkjum öll svona sögur. Við vitum öll af fólki sem er í þessum sporum og við þekkjum öll einhvern sem er haldinn fíknisjúkdómi og sumir hverjir hreinlega lífshættulegum. Þetta er fólk sem þið hittið kannski á hverjum degi og það mætir ferskt til vinnu og sinnir sínum verkefnum. Þá erum við ekki að tala um það sem var kannski atvinnusjúkdómur þeirra sem störfuðu hér á undan okkur í þessum sal fyrir einhverjum kannski ekki mjög mörgum áratugum síðan, það voru nú ekki kannski alveg endilega alltaf sömu prómillin í blóðinu hjá fólki eins og kannski er núna, alla vega hjá okkur sem erum hérna stödd í dag, en ópíóíðafaraldurinn og lyfjafaraldurinn sem nú geisar hérna um landið alveg eins og vestanhafs, eins og við þekkjum í gegnum poppkúltúrinn mörg hver, er miklu algengari en fólk gerir sér grein fyrir.

Ég ætla að vekja máls á því að staðan í þeim úrræðum sem ég hef nefnt hérna í dag er auðvitað bara afleiðing af því að það hefur ekki verið vilji til þess að móta neitt sérstaklega heildstæða, þverpólitíska, markvissa stefnu í málefnum fíknisjúkdóma. Ég ætla að varpa fram þeirri staðhæfingu að það sé mat mitt að yfirvöld hafi ekki getað komið sér saman um það hvar fíknisjúkdómum sleppir og hvar afbrotaferillinn byrjar en við vitum að þetta hangir allt saman á sömu spýtunni og er stór vítahringur. Um leið og við erum tilbúin til þess að eiga mjög hreinskiptið samtal um þetta þá getum við byrjað að ná árangri. Ég held að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga sé einmitt nauðsynlegt upphafsskref í því að gera nákvæmlega þetta.

Það sem auðvitað verkefnið felst í er að þetta byrjar á borði heilbrigðisráðherra. Ég finn svo sannarlega ekki að því, síður en svo. Við erum með fyrsta fasann sem eru einmitt forvarnir og bráðafíknimóttaka og þetta finnst mér einmitt svo gífurlega mikilvægt, að það sé til staður þangað sem fólk með fíknivanda getur leitað vegna bráðs vanda. Þá erum við ekki bara að tala um — það er líka mikilvægt að við séum með skaðaminnkunarúrræði í apótekum landsins. Mér finnst frábært fyrirkomulag sem ég sá í fjölmiðlum á dögunum, tilraunaverkefni sem á sér stað í Reykjanesbæ þar sem fólki er mætt fordómalaust og því rétt lífsnauðsynlegt mótefni, í raun lyf sem heitir naloxone í formi nefspreys, til þeirra sem hafa ánetjast verkjalyfjum. Svona verkefni eru svo frábær byrjun á því að taka fólk fordómalaust í fangið.

Síðan tölum við auðvitað um meðferðarúrræði og eftirfylgni meðferðar. Þar kannski held ég að sé pínu brekka í kerfinu. Af hverju segi ég það? Vegna þess að ég hef allar ástæður til að halda það. Það er árviss viðburður, einn af þessum árvissu viðburðum fyrir fjárlaganefnd, alltaf reglulegir fastagestir sem koma þar inn og gera grein fyrir nöturlegri stöðu innan síns geira, sem er skammarlega fjársveltur. Hér er ég auðvitað að tala um Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ. Þetta eru samtök sem reka þekktasta meðferðarúrræðið sem við þekkjum. Þar erum við að tala um fíknimeðferðir sem lúta að áfengi og allt upp í hörðustu efni, spilafíkn einnig, sem er annar handleggur, en allt er þetta, eins og ég segi, vandi sem samtökin hjálpa fólki að ná tökum á. Bara svona til að nefna það þá erum við að tala um að heildartekjur samtakanna hafa verið tæpir 2 milljarðar á undanförnum árum. Sjálfsaflatekjur þessarar stofnunar eru sirka 40% af þessum tekjum. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að frjáls félagasamtök eða jafnvel ríkisstofnanir afli fjár frá mikilvægum sjálfboðaliðasamtökum eða einstaklingum, ég sé ekkert að því, en þetta hlutfall af heildartekjum er að mínu mati allt, allt of hátt. Við myndum ekki vilja sjá þetta í mörgum öðrum innviðum okkar í þessu landi.

Ég vek athygli á því að þessi vandi hefur ítrekað verið ávarpaður gagnvart fjármálaráðherra og að sögn samtakanna eru miklar vísbendingar á lofti um að þetta sé kannski ekki mjög bagaleg staða af hálfu þeirra sem hafa haldið hér um fjárreiður ríkisins til þessa, þeim finnist þetta jafnvel bara til fyrirmyndar að einhverju leyti. Vil ég þó ekki hafa eftir fólki það sem ég varð ekki vitni að sjálf en ég tel að þessi afstaða til meðferðarstofnana sé eitthvað sem við höfum mikið tækifæri til að breyta. Ég vona svo sannarlega að verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt þá geti heilbrigðisráðherra verið mikilvægur bandamaður í því að gera grundvallarbreytingar á þessum hugsunarhætti, gera þetta að viðurkenndum sjúkdómi í augum okkar allra hérna í þessu samfélagi og horfast í augu við það hvers konar samfélagsmein þetta er. Engar vísbendingar eru um að það breytist án þess að veruleg breyting verði á í afstöðu ríkisins og hef ég nú ekki haft tækifæri til að fara út í mikilvægi þess að við séum líka samhliða þessu að móta einhverja almennilega endurhæfingarstefnu í fangelsum landsins sem er ekki til staðar hér á Íslandi og skerum við okkur algerlega þar úr á Norðurlöndum, vegna þess að ég veit að hér inni eru áhugasamir aðilar um norrænar fyrirmyndir í rekstri innviða hér á landi. (Forseti hringir.) En eins og ég segi, fjársvelti SÁÁ hefur leitt til færri innlagna og sumarlokana og við vitum það t.d. að fíknin fer ekki í sumarfrí.