154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Innflytjendur eru tæpur fimmtungur landsmanna en hlutfallið er mjög breytilegt á milli byggðarlaga. Sveitarfélögin með hæst hlutfall innflytjenda eru öll á landsbyggðinni en ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu fer yfir 20% nema Reykjavík. Ég hef allt mitt sextíu ára líf búið í samfélagi með innflytjendum. Lengst af fannst mér viðhorf stjórnvalda vera: Innflytjendur eru margir úti á landi en það reddast því að návígið þar er svo mikið. En loksins erum við að vakna sem samfélag og í gær sáum við virkilega góða umfjöllun í þættinum Torgið hjá RÚV.

Ef við viljum búa í samfélagi inngildingar eða samlögunar í stað stéttaskiptingar og skautunar þarf markvissa vinnu. Sem betur fer er nú unnið að fjölbreyttum umbótum. Þjónustugátt fyrir mat á námi og starfsréttindum opnaði á island.is í byrjun febrúar. Þar með batnar aðgengi fólks að þjónustu og upplýsingum. Í framhaldinu er hægt að fara í frekari úrbætur verkferla. Það er ótrúlega stutt síðan við fórum að skoða hvernig best væri að kenna og læra íslensku sem annað tungumál. Þar þurfum við að halda áfram að afla þekkingar um íslensku sem annað mál, bæta tækifæri allra kennara á öllum skólastigum til símenntunar og auka framboð af námsefni. Leik-, grunn-, framhalds- og háskólar, framhaldsfræðslan, starfsmenntasjóðir, verkalýðsfélög, atvinnurekendur, sveitarfélög og ríki hafa öll formlegt hlutverk í móttöku og inngildingu innflytjenda og þurfa að vinna saman. Starfstengd íslenska er mikilvæg og gleymum ekki mikilvægasta viðfangsefni allra foreldra, uppeldishlutverkinu. Við þurfum að tryggja aðgang að námskeiðum um grundvallarorðaforða íslenskunnar fyrir foreldra. Innflytjendur eru undirstaða hagvaxtar á Íslandi síðustu ár og eru hluti af bjartri framtíð Íslands ef við stöndum okkur næstu árin.