154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[15:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir að vekja aftur máls á stöðu lögreglunnar í landinu. Um er að ræða mjög mikilvægt mál og er það eitt af mínum áherslumálum í embætti að styrkja löggæsluna í landinu. Það er ljóst að löggæslumál hafa þróast mikið undanfarin ár, bæði að eðli og umfangi. Landsmönnum hefur fjölgað hratt og ferðamenn eru margfalt fleiri en áður. Þessari fjölgun hafa fylgt margvísleg verkefni lögreglu og aukið álag um land allt. Á sama tíma höfum við orðið vör við aukinn vopnaburð og alvarlegri afbrot en áður, auk þess sem skipulögð brotastarfsemi hefur aukist verulega hér á landi. Þannig má nefna að alvarlegum ofbeldisbrotum og vopnuðum útköllum lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra hefur fjölgað síðustu ár. Sem dæmi má nefna að fjöldi útkalla þar sem sérsveit vopnast vegna skotvopna hefur nærri þrefaldast frá árinu 2016 og nærri fjórfaldast vegna eggvopna. Þá hefur umfang skipulagðrar brotastarfsemi aukist hér á landi. Þessu til viðbótar er ljóst að ógnir gegn öryggi ríkisins hafa aukist á sama tíma. Starfsumhverfi lögreglu hefur því gjörbreyst á síðustu árum. Lögreglan þarf nægan mannafla til að bregðast við þróun samfélagsins og þeim ógnum sem að íslensku samfélagi steðja.

Hvað varðar mannafla liggur fyrir að fjöldi lögreglumanna hefur ekki haldið í við áðurnefnda þróun þrátt fyrir að lögreglumönnum hafi heilt yfir fjölgað á síðustu tíu árum um 25% og þar af menntuðum lögreglumönnum um tæplega 7%. Staðan er hins vegar sú að þessi aukning hefur þó ekki haldist í hendur við aukinn fjölda verkefna, aukin mannfjölda og gríðarlega fjölgun ferðamanna. Sem dæmi má nefna að árið 2013 voru starfandi lögreglumenn á landinu 656 en árið 2023 voru þeir 895. Þrátt fyrir þessa fjölgun hefur lögreglumönnum hlutfallslega fækkað á hverja 10.000 ferðamenn á þessu sama tímabili. Árið 2013 var fjöldi lögreglumanna í kringum átta á hverja 10.000 ferðamenn en árið 2023 var fjöldinn 4,6 lögreglumenn á hverja 10.000 ferðamenn.

Þessi staða sem nú er uppi hefur kallað á markvissar aðgerðir til að bæta þessa stöðu. Má í því skyni nefna að í fyrra var sett af stað fjórþætt aðgerðaáætlun í samstarfi dómsmálaráðuneytisins, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra landsins og héraðssaksóknara. Fól hún í sér að stórefla almenna löggæslu, bæta málshraða kynferðisbrota, aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi og eflingu lögreglunáms hér á landi. Var í því skyni fjölgað umtalsvert stöðugildum hjá lögreglu árið 2023 til að mæta veikleikum og efla löggæslu um land allt. Var í því skyni aukið varanlega fjárframlag til lögreglunnar um 750 milljónir og 550 milljónir til viðbótar til að efla aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi. Á höfuðborgarsvæðinu var lögreglumönnum á vakt fjölgað og á landsbyggðinni var viðbragðsgeta styrkt. Þá var einnig lögð áhersla á að efla samfélagslöggæslu.

Á síðustu árum hefur margt breyst í starfsemi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og annars staðar á landinu. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu býr við þann raunveruleika að tveir þriðju hlutar af íbúum landsins eru búsettir þar, auk þess sem um 70–80% allra afbrota eru skráð á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg ljóst að þróun mannafla hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er áhyggjuefni þar sem hlutfall mannafla á höfuðborgarsvæðinu hefur dregist saman á síðustu tíu árum. Á undanförnum árum hefur embættið fengið auknar fjárveitingar til að styrkja almenna löggæslu, rannsóknir og saksókn kynferðisbrota, ásamt styrkingu til að takast á við skipulagða brotastarfsemi. Að mati ráðherra er ekki boðlegt að dæmt fólk komist hjá refsingum vegna þess að fangelsiskerfið hafi ekki tök á að boða dómþola í afplánun.

Dómsmálaráðuneytið hefur gripið til margvíslegra aðgerða til að stytta boðunarlista og þá hafa auknir fjármunir verið veittir í málaflokkinn, m.a. til að geta fullnýtt þau pláss sem þegar eru til staðar í fangelsunum. Það er þó mat ráðherra að grípa þurfi til frekari aðgerða og er ráðuneytið til að mynda að hefja vinnu við heildstæða stefnumótun þegar kemur að málaflokknum. Meðal þess sem er til skoðunar er hvort hægt sé að auka afplánun utan fangelsa enn frekar en gert er í dag, auk þess að greina stöðuna í húsnæðismálum með langtímasjónarmið í huga.