154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[15:53]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, kærlega fyrir að vekja máls á stöðu lögreglunnar og mönnun þar innan raða. Allt snýst þetta um traust, traust sem fjárveitingavaldið sýnir þessari mikilvægu stétt — og það kemur ekki til af sjálfu sér — og samfélaginu. Það er ekki nóg að fjölga fólki í röðum hennar, setja fjármagn í kerfið og kveðja aðhaldskröfurnar, sem eru árviss viðburður, það skiptir máli hvernig það er gert. Það er nefnilega alveg jafn mikilvægt að við hugum markvisst að fjölbreytni innan lögreglunnar og að samsetning hennar endurspegli samfélagið sem við búum í. Lögreglumenn eiga nefnilega að vera alls konar. Við þurfum fleiri konur í lögregluna. Rannsóknir sýna því miður að hlutur kvenna í lögreglunni hefur ekki aukist sem skyldi á undanförnum árum og því er mikilvægt að skoða hugsanlegar ástæður þess. Samkvæmt samtölum mínum við fulltrúa lögregluumdæmanna gera fjárveitingar til þeirra t.d. ekki ráð fyrir því að lögreglukonur fari af vöktum þegar þær eru barnshafandi. Hér þarf að vakna til lífsins. Við þurfum líka fólk af erlendum uppruna í lögregluna og að leggja áherslu á þjónustuhlutverk lögreglunnar í öruggu nálægðarsamfélagi þar sem við treystum hvert öðru og stofnunum okkar umfram valdshlutverkið. Ég fæ ekki séð að ríkisstjórnin hafi sýnt sérstakan metnað í því fyrrnefnda.

Ef ríkisstjórnin legði áherslu á þjónustuhlutverk lögreglunnar væri þá ekki málsmeðferðar- og viðbragðstími styttri? Væru lögreglumenn öruggari á vettvangi, í útköllum og kannski mögulega væri sólarhringsvakt lögreglunnar um allt land? Hvernig væri það? Það er algerlega morgunljóst að fólk sem gefur kost á sér til starfa innan lögreglunnar gerir það ekki út af launaumslaginu. Áhættan sem þetta fólk tekur á hverjum degi sem það fer á vakt endurspeglast ekki í launum. Ef við viljum hæft fólk í framlínuna þurfum við að sýna ábyrgð og hætta að taka því sem gefnu (Forseti hringir.) að lögreglufólk standi vaktina í óöruggum aðstæðum.