154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[15:56]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu sem er mikilvæg. Í forsendum hennar er fullyrt að lögreglan yfir landið sé fámenn í samanburði við önnur ríki og ég tek undir það. En ég vil líka leggja áherslu á að mikilvægt er að horfa ekki bara á lögreglumenn á íbúa. Það þarf líka að horfa á ferkílómetra, fjölda þéttbýlisstaða og lengd vega á bak við hvern lögreglumann og þar með vegalengdir á milli starfsstöðva, horfa til óbyggða og byggða og möguleika á samgöngum á milli svæða í hverju umdæmi. Þá er lykilatriði að á öllum starfsstöðvum starfi a.m.k. tveir lögreglumenn og kostir fjarvinnu verði nýttir til að búa til fjölbreytni í verkefnum á starfsstöðvum sem liggja fjarri þéttbýlustu svæðunum.

Ég vil hér líka víkja að aðstöðu fyrir löggæslu á Seyðisfirði en aðstöðumál eru auðvitað mjög mikilvæg. Mig langar að spyrja hvernig vinnu við umbætur á aðstöðunni á Seyðisfirði miðar, hvort sem það svar fæst hér í dag eða síðar. Starfsaðstaða þar hefur verið í undirbúningi árum saman og ég veit ekki betur en að samhljómur sé um verkefnið.

Næst langar mig að víkja að forvörnum og samfélagslögreglu sem ég tel mjög mikilvæga og fagna nýlegum viðbótarframlögum til hennar. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort þurfi að sérgreina þau framlög þannig að alls staðar verði lögð áhersla á tengsl við nærsamfélagið í gegnum starf samfélagslögreglunnar, einkum við ungt fólk í samstarfi við alla þá sem sinna forvörnum í hverri byggð og hverju samfélagi. Fjármagn og stöðugildi í samfélagslögreglu eru mikilvægur liður í afbrotaforvörnum.

Þá langar mig að lokum að víkja almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sem við ræddum hér í sérstakri umræðu á mánudaginn, en þar held ég að öllum sé ljóst að þarf að fara yfir mönnun og tækifæri til að sinna öllum þeim verkefnum sem eru á því borði.