154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[16:01]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu brýna máli. Hér er spurt um stöðu lögreglunnar og fámenni hennar á höfuðborgarsvæðinu. Það er rétt að hér á suðvesturhorninu býr meginþorri landsmanna. Ég vil þó vekja athygli á því að lögreglan á landsbyggðinni býr við sama fámenni en þarf í störfum sínum að sinna eftirliti með gríðarlega stóru landsvæði og oft við mjög krefjandi aðstæður. Nálægð við vel mannaðar lögregluvarðstofur þar sem viðbragðstími er stuttur er einn af hornsteinum búsetuöryggis. Með þeirri miklu fjölgun ferðamanna sem hefur átt sér stað á síðustu árum hefur þörfin fyrir eftirlit á landsbyggðinni aukist gríðarlega. Fjöldi ferðamanna leggst ofan á fjölda íbúa og það getur þýtt margföldun þess fjölda fólks sem er á hverjum stað á hverjum tíma. Þá má gera sér í hugarlund hvernig sú staða blasir við fámennri lögreglu, þar sem fólk er stundum eitt á vakt á hverjum stað, með tilliti til umferðareftirlits, viðbragðs vegna slysa, válegra atburða og annars öryggishugbúnaðar.

Í því samhengi er mikilvægt að við fjölgum og mönnum fleiri lögregluvarðstofur en áður. Það hefur gefið góða raun í Húnaþingi vestra, en slík stöð opnaði þar á síðasta ári. Það sama þarf að gerast víðar, eins og í Dalabyggð sem hér hefur verið nefnd sem þarf að sinna gríðarlega stóru svæði. Vil ég nota tækifærið og spyrja ráðherrann hvar það mál stendur og hvernig það sé tímasett að við sjáum þar opnaða lögregluvarðstofu. Þetta eykur gæði umferðareftirlits og öryggistilfinningu íbúa og hér skiptir viðbragðstími einnig sköpum.

Við höfum þegar séð jákvæð áhrif aukinna fjárveitinga undanfarin ár til að fjölga lögreglumönnum og bæta við starfsstöðvum. Betur má samt ef duga skal. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að við beinum sjónum okkar að því hvernig við getum fengið til starfa fleiri menntaða lögreglumenn. Þar skipta starfsaðstæður og aðbúnaður miklu, hvort sem um er að ræða á fámennari stöðum á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu.