154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[16:03]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Við ræðum hér brýna þörf á að fjölga í lögreglunni á Íslandi. Einhverjum gæti þótt áhugavert að sjá hversu breið samstaða er um það hér í þessum sal með öll þau ólíku viðhorf til lögreglu almennt sem hér finnast fyrir. Frumskylda lögreglu í því að gæta öryggis fólks í samfélaginu ætti alltaf að vera að draga úr óróa, róa aðstæður fremur en hið gagnstæða. Sýnt hefur verið fram á það að vopnaburður lögreglu hefur öfug áhrif. Ofbeldi leiðir enda oftast af sér meira ofbeldi og er afar illa til þess fallið að koma í veg fyrir það. Valdbeiting er ekki úrræði, hún er úrræðaleysi. Við beitum valdi þegar önnur úrræði eru ekki fyrir hendi, þegar við vitum ekki hvað annað við eigum að gera. Rétt er að hafa það skýrt í huga. Það að lögreglan upplifi sig örugga í sínu starfi er alger forsenda þess að hún geti brugðist við aðstæðum með þeim hætti sem best verður á kosið. Lögregluþjónar eru fólk. Lögregluþjónar eiga fjölskyldur. Lögregluþjónar verðskulda það að upplifa öryggi í sínu starfi, að þeir séu ekki settir í aðstæður sem þeir ráða ekki við. Það gerir þeim kleift að sinna löggæslu með sem bestum hætti og draga úr óöryggi í samfélaginu.

Forseti. Hæstv. ráðherra er tíðrætt um afbrotavarnir, að koma þurfi í veg fyrir afbrot áður en þau eru framin. En hinar raunverulegu afbrotavarnir eru ekki auknar valdheimildir lögreglu, auknar heimildir til að fylgjast með ferðum og athöfnum almennra borgara og til þess að beita líkamlegu valdi þegar út af bregður. Hinar raunverulegu afbrotavarnir eru aukinn skilningur og samkennd í samfélaginu með því að tryggja afkomu fólks og öryggi, tryggja að frumþörfum manneskjunnar sé sinnt; þörfinni fyrir líkamlegt öryggi, þak yfir höfuðið, mat í maga, virðingu og skilning, þörfinni fyrir að eiga sér stað í samfélaginu.

Forseti. Um árabil hefur verið kallað eftir fjölgun lögregluþjóna á Íslandi til þess að tryggja möguleika þeirra til þess að gæta að öryggi okkar allra án þess að ógna öryggi sínu eða annarra.