154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[16:08]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það velkist enginn í vafa um að það er frumskylda stjórnvalda á hverjum tíma að tryggja öryggi, að við borgararnir getum reitt okkur á að lögreglan sé til staðar þegar á þarf að halda, að dómstólar hafi tök á að sinna starfi sínu þegar lögregluvinnunni sleppir og að fangelsiskerfið geti tekið við hinum dæmdu og þeir afplánað við mannúðlegar aðstæður og eigi möguleika á þjónustu til betrunar. Þegar þessi frumskylda bregst þá minnkar öryggistilfinning fólksins í landinu og glæpum fjölgar, líka ofbeldisglæpum sem geta ógnað lífi og heilsu og velferð.

Hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir fór ágætlega yfir staðreyndir málsins í sinni framsögu. Það er sláandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að á 17 árum hafi lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu fækkað úr 339 í 297. Á 17 árum hefur lögreglumönnum fækkað á meðan íbúum fjölgar hratt. Ekki má gleyma því að ferðamönnum fjölgar líka stórfellt og verkefni lögreglunnar aukast þar af leiðandi líka. Það eru miklu færri á vaktinni með mun fleiri verkefni og mun alvarlegri verkefni líka. Það eru færri á vaktinni á meðan glæpum fjölgar og ógnin við öryggi borgaranna eykst að sama skapi

Og hvað með öryggi lögreglunnar sjálfrar? Er líklegt að færri lögreglumenn á stærra og fjölmennara svæði séu öruggari í störfum sínum? Þeir þurfa oft að vaða inn í alls konar aðstæður sem við hin getum ekki einu sinni reynt að ímynda okkur hverjar eru. Ofan á þetta fækkar svo menntuðum lögreglumönnum. Við verðum því að hlusta eftir því þegar lögreglumenn tala um að þeir óttist um öryggi sitt í starfi. Það þarf líka flokkurinn að gera sem rígheldur í embætti dómsmála og hefur gert samfellt í áratug. Hann þarf að hlusta eftir ákalli úr fangelsiskerfinu, frá dómstólunum og frá lögreglunni vegna þess að tölurnar og sögurnar sem við heyrum þaðan eru ekki í neinu samræmi við möntruna um að tryggja þurfi öryggi og velferð borgaranna í landinu.