154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[16:18]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Árið 2014 tók dómsmálaráðuneytið ákvörðun um það að fækka lögregluembættum úr 14 í níu. Embættin eru nú og það eru hin gömlu átta kjördæmi og Vestmannaeyjar. Það var mikilvæg breyting. Þessi fækkun lögregluembætta átti að bæta þjónustuna og auka hagræði. Hún átti ekki að leiða til fækkunar lögreglumanna. Við eigum að líta á lögregluna í landinu sem þjónustu við íbúana og við eigum eiginlega að nota hugtakið löggæsluþjónusta í þessu samhengi. Við getum sagt að löggæsluþjónusta við íbúa höfuðborgarsvæðisins hafi verið skert stórkostlega síðastliðin 16 ár, þ.e. á árunum 2007–2023. Árið 2007 voru 339 lögreglumenn og 297 árið 2023. Ég vona að ég hafi þetta rétt eftir. Þessi skerðing er gríðarlega mikilvæg og það er mikilvægt að dómsmálaráðuneytið og við á Alþingi lögum þessa skekkju og þessa skerðingu. Lögreglan er sú ríkisstofnun sem ásamt almannavörnum á að tryggja innra öryggi landsins og innra öryggi íbúanna. Lögreglan er helsti viðbragðsaðili í landinu ásamt hjálparsveitunum, sem eru sjálfboðaliðasveitir, hvað þetta varðar. Þetta er mjög mikilvægt í landi jarðhræringa og eldsumbrota, ekki síst nú á tímum á Reykjanesi. Ég vil taka undir þá fyrirspurn sem hér var lögð fram fyrir ráðherra varðandi lögreglustöð í Dalabyggð. Í því sambandi verður að líta til næstu lögreglustöðva og fjarlægðar til þeirra, í Borgarnesi, Stykkishólmi og á Vestfjörðum. Það er gríðarlega mikilvægt að það komi stöð sem þjónustar það mikla landsvæði sem er í dölunum, eins og vísað var til í skýrslu ríkislögreglustjóra hvað það varðar. (Forseti hringir.)

Að lokum vil ég minnast á það að hæstv. dómsmálaráðherra geri gangskör í fangelsismálum svo að hægt sé að fullnusta refsidóma í landinu.