154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[16:20]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Árið 2022 voru 316 einstaklingar dæmdir í skilorðsbundna refsingu á Íslandi. Að vissu leyti má segja að það sé til marks um umburðarlynt samfélag en það er hins vegar ótækt hversu margir þessara skilorðsbundnu dóma falla í alvarlegum ofbeldis- og kynferðisbrotamálum, alvarlegustu brotunum með þyngstu viðurlögin. Langur málsmeðferðartími er notaður sem rök til að skilorðsbinda dóma í nauðgunarmálum og þessi langi málsmeðferðartími er til kominn að miklu leyti vegna manneklu í lögreglunni. Þá eru mörg dæmi þess að kærur í kynferðisbrotamálum séu felldar niður vegna þess að rannsókn lögreglu var áfátt. Á árunum 2016–2022 lá stór hluti nauðgunarmála í dvala á einhverju stigi og engar rannsóknaraðgerðir voru í gangi eða önnur meðferð. 13% mála lágu óhreyfð í ár eða meira á meðan þau voru til meðferðar og helsta skýringin sem gefin var var mannekla meðal rannsakenda.

Lengri dómar en eins árs fangelsi ættu að jafnaði ekki að vera skilorðsbundnir en skilorðsbinding dóma við kynferðisbrotum virðist vera leið dómstóla til að jafna hlut brotamanna sem teljast hafa þurft að bíða jafnvel árum saman eftir dómtekt mála sinna vegna langs málsmeðferðartíma sem stafar af manneklu innan lögreglunnar. Þetta þýðir á einföldu máli, virðulegi forseti, að fólkið sem fremur alvarlegustu brotin í mannlegu samfélagi gengur laust vegna þess að ekki er til mannafli til að rannsaka brot þess innan ásættanlegs tímaramma. Brotaþolar geta hvenær sem er átt von á því að rekast á þann sem braut gegn þeim; í búðinni, í leikhúsinu, á Laugaveginum. Mjög brýnt er því að fjölga í lögreglunni svo að réttlætið nái fram að ganga fyrir alla.