154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[16:22]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla að nýta þessa seinni ræðu mína til að víkja nokkrum orðum að vinnumenningu innan lögreglunnar og stöðu og þróun kynjajafnréttismála. Út er komin ný skýrsla ríkislögreglustjóra um þetta mál. Tilefni rannsóknarinnar að baki skýrslunni er framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum en rétt er að benda á mikilvægi þess í ofanálag að lögregla og önnur yfirvöld endurspegli fjölbreytileika samfélagsins eftir því sem kostur er.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er lögreglan enn mjög kynjaskiptur vinnustaður og engin merki um að það muni breytast án þess að ráðist verði í aðgerðir. Konum hafi þó fjölgað innan lögreglunnar síðustu ár en brotthvarf sé hins vegar hlutfallslega meira á meðal kvenna, auk þess sem bakslag virðist hafa orðið árið 2023 þegar einungis þriðjungur brautskráðra úr lögreglunámi var konur. Konur eru í meiri hluta svokallaðs borgaralegs starfsfólks lögreglunnar en lögreglumenn eru að miklum meiri hluta karlar, um 75%.

Í skýrslunni er margar áhugaverðar tölur að finna sem eiga vel við í þeirri umræðu sem við eigum hér í dag. 41% þátttakenda í könnuninni svara því til að þau hafi upplifað óviðráðanlegt vinnuálag — 41%. Þar á eftir kvaðst um þriðjungur hafa verið gert að vinna verkefni sem væru ekki samboðin hæfni þeirra og 25% höfðu fengið úthlutað verkefni með óraunhæfum eða ómögulegu markmiðum eða tímamörkum. Þá vakti það athygli mína að samkvæmt niðurstöðum úttektarinnar hafa karlar og konur ólík viðhorf til stöðu kynjanna í lögreglunni. Er það m.a. orðað svo í skýrslunni að konur séu almennt velkomnar til starfa sem lögreglumenn, svo lengi sem þær séu taldar líkamlega sterkar og valdsmannslegar. Konur treysta sér og öðrum konum hins vegar til að sinna öllum störfum lögreglu. (Forseti hringir.)

Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru að breytingar í jafnréttisátt séu hægar. Fjölgun kvenna í lögreglunni muni ekki ein og sér leiða af sér jafnrétti (Forseti hringir.) og inngildandi vinnumenningu í lögreglunni og mikil þörf sé á menningarlegum og kerfisbundnum breytingum.