154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Fáliðuð lögregla.

[16:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Árið 2019 var í fyrsta skipti gefin út löggæsluáætlun til fimm ára sem hafði það markmið að setja fram almenna stefnumörkun í löggæslumálum. Nú er hafin vinna við að gera nýja löggæsluáætlun og er áætluninni ætlað að vera eins konar verkfæri til að kortleggja og greina stöðuna í löggæslumálum hverju sinni og setja markmið og mælikvarða. Í þeirri vinnu verður skoðað sérstaklega hvaða mannafli þarf að vera til staðar hjá lögreglunni til að hún geti sinnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Til viðbótar við fjölgun lögreglumanna og áherslu á aukna menntun þeirra verður jafnframt að tryggja lögreglunni viðeigandi heimildir til að hún geti rækt starf sitt. Í því skyni mun ég leggja fram frumvarp til breytinga á lögreglulögum en eitt af markmiðum lagafrumvarpsins er að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum er varðar brot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi. Með frumvarpinu er því lögð aukin áhersla á mikilvægi þess að lögregla geti gripið fyrr inn í atburðarás og þannig fyrirbyggt að framin séu alvarleg brot. Að mínu mati er fyrirséð að fjölgun og menntun lögreglumanna verði áframhaldandi áskorun. Við erum lítil þjóð í stóru landi og það er mikilvægt fyrir okkur, bæði á þéttbýlissvæðum sem og í dreifbýli, að vera vel búin og vel mönnuð menntuðum lögreglumönnum. Ég sem dómsmálaráðherra legg áfram gríðarlega áherslu á að efla löggæslu í landinu með þeim frábæra mannauði sem þar starfar.