154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[16:56]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Við í Samfylkingunni styðjum auðvitað tilganginn með þessum fjárauka, teljum að það sé mikilvægt að greiða úr ólýsanlegum vandamálum Grindvíkinga á húsnæðismarkaði og munum auðvitað styðja allar slíkar aðgerðir. Okkur finnst hins vegar ekki skýrt að ekki þurfi að breyta lögum og samþykktum Bríetar vegna kaupa á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur haft það markmið með lögum að fjárfesta á svæðum þar sem er markaðsbrestur. Nú má auðvitað færa rök fyrir því að það sé markaðsbrestur á höfuðborgarsvæðinu en hann er öfugur við það sem er úti á landi þar sem framleiðslukostnaður er einfaldlega hærri en söluverð. Hér vantar íbúðir og erum við náttúrulega með þenslu og erfiðleika af þeim sökum.

Varðandi lög og samþykktir Bríetar þá stoðar nú lítið að fá póst kl. 9.26 í morgun þegar frestur til þess að vera á nefndaráliti er löngu liðinn. Það hefði verið sjálfsögð kurteisi að gera þetta fyrr. Við skulum halda því til haga að það skiptir máli að Alþingi geri hlutina í réttri röð vegna þess að þetta var ekki að koma upp á fundi í síðustu viku heldur hafa stjórnarandstöðuflokkarnir bent á þetta og kallað eftir þessu alveg frá því í desember þegar fyrri eða fyrsta lota í kaupum Bríetar átti sér stað. Við þekkjum það öll með hvaða hætti það kom inn í þingið. Það var ekki kynnt fyrir fulltrúum flokkanna fyrr en það datt inn á borð og þetta eru ekki góð vinnubrögð út af fyrir sig.

En það er ekki bara það sem gerir það að verkum að við vildum ekki vera á þessu nefndaráliti. Það getur vel verið að það sleppi fyrir horn að breyta ekki þessum lögum eða samþykktum vegna þess að þetta er tímabundin aðgerð. Við í Samfylkingunni teljum hins vegar mikinn vafa leika á því hvort það sé skynsamlegt, eins og er beinlínis sagt þarna, að það eigi að selja þetta strax aftur. Það mun auðvitað líka hafa áhrif á markaðinn þegar fullt af eignum fer út og þarf að velja þann tímapunkt vel. En fyrst og síðast getur það verið gott fyrir þessi félög að vera með stærri eignasöfn. Það kom fram hjá fulltrúa Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á þessum fundi að það væri mikil vöntun á íbúðum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, og það lá líka fyrir í tölum fyrir næstu ár að sá halli og sú vöntun væri að aukast. Ég held að ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að eftir þrjú, fjögur ár sé þetta skortur upp á 7.000 eignir sem vantar inn á markaðinn. Ég hefði talið að ein af mikilvægustu aðgerðunum núna væri að búa til stöðugan markað í húsnæðismálum til mjög langs tíma. Þar mun auðvitað almenni markaðurinn kannski leika lykilhlutverkið en það hlutverk sem félagsleg úrræði og opinberar íbúðir leika er bara allt of lítið. Það er ekki einu sinni nóg til að sýna almenna markaðnum aðhald þar sem húsbyggjendur geta í rauninni ráðið framlegðinni við ákveðnar aðstæður þegar það er mikil eftirspurn og mikil vöntun á húsnæði. Bríet, Bjarg, Brá og hvað þetta allt heitir, Brú jafnvel líka; ef þetta yrði stærri hluti af heildarumsvifum á húsnæðismarkaðnum þá held ég að það myndi gera miklu stöðugra kerfi fyrir okkur. Við munum öll hvað það kallaði yfir húsnæðismarkaðinn þegar félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður árið 1999 í ríkisstjórnartíð Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Síðan þá hafa húsnæðismálin verið í mjög miklum ólestri og gríðarlegar hækkanir hafa verið vegna þess og ýmissa annarra þátta. En munum það líka að þá fylgdi sögunni hjá þessum flokkum að það ætti að bregðast við því með því að vaxtabótakerfið yrði stærri þáttur í stuðningsnetinu, en við þekkjum öll hvernig það hefur verið. Búið er að grafa undan því kerfi linnulaust alveg fram á þennan dag og það er hvorki fugl né fiskur.

Þetta eru nú fyrst og fremst athugasemdir okkar í Samfylkingunni. Við munum auðvitað styðja allar aðgerðir sem verða til þess að fljótt og vel verði hægt að koma til móts við þarfir Grindvíkinga sem eru margir á hrakhólum. Auðvitað bíðum við spennt eftir því að sjá og fá að taka þátt í að afgreiða þessa stóru tillögu um uppkaup á húsnæði sem mun þá losa um þessar íbúðir sem nú er verið að kaupa. En mín skoðun er sú að það sé ekki augljóst mál og reyndar vafaatriði að rétt sé að ákveða það núna að losa sig við þessar íbúðir um leið og Grindvíkingar þurfa ekki á þeim að halda vegna þess að tugþúsundir Íslendinga þurfa á félagslegum úrræðum að halda í dag og næstu ár og áratugi fram á veginn.