154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[17:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Er þetta gott mál? Ég hef ekki hugmynd, satt best að segja. Það kemur inn á þingið á fleygiferð og það gefst ekki tími til að gaumgæfa það og skoða hvernig niðurgreiðslan á vöxtunum er og fyrirkomulagið með Bríet og ýmislegt annað sem hér er í gangi, hvort það sé víst að þetta sé vel gert í rauninni og eins hagkvæmt og hægt er að gera það og þess háttar. Ég hef ekki hugmynd. En miðað við aðstæður þá er ég alveg tilbúinn til að fyrirgefa það. Það skiptir meira máli og er verðmætara að eyða óöryggi fólks sem býr við þessar aðstæður í Grindavík. Það er ekkert flóknara en það í rauninni þegar allt kemur til alls. Svo glímum við bara við það seinna hvort það hafi verið ofmat eða vanmat. Það er ekkert í þessu sem gerir það að verkum að það muni einhverjum allt of stórum upphæðum. Frávikin í því fjármunamati sem þarna er undir líta ekki út fyrir að verða neitt stórkostleg, einhverjar 100 milljónir fram og til baka miðað við aðstæður skipta ekki öllu máli, við verðum stundum aðeins að fyrirgefa það með tilliti til óvissunnar þegar allt kemur til alls. Það kostar líka að eyða óvissu. Eins og ég hef orðað það áður þá er það dálítið hlutverk ríkisins að eyða óvissu.

Er þetta gott mál eða ekki, eins og ég segi? Ég veit það ekki. Í þessu tilviki þá verðum við í stjórnarandstöðunni dálítið að treysta á ríkisstjórnina sem er pínu óþægilegt. Það er pínu óþægilegt að þurfa að gera það með þeim stutta fyrirvara sem við höfum til að fjalla um málið. Við fáum ekki alveg aðgang að öllum upplýsingum sem liggja á bak við það að þessi ákvörðun var tekin en ekki hin og höfum ekkert endilega aðgang að öllum þeim möguleikum sem voru skoðaðir og þess háttar. En aftur fyrirgefst það dálítið í svona aðstæðum eins og eru í dag.

En samt, við lentum í því fyrir áramót að Grindavíkurmálið sem kom inn þá, til þess að kaupa upp íbúðir, kom í rauninni þremur vikum eftir að það var búið að ákveða hvað átti að gera. Það er ekkert rosalega afsakanlegt, það er dálítið illa farið með þinglega meðferð. Framkvæmdarvaldið er búið að ákveða að gera eitthvað en kemur þremur vikum seinna til þess að afgreiða málið á tæpri viku í gegnum þingið. Það verður að gera betur. Það er pínulítið þannig hvað þetta mál varðar. Hérna er verið að endurtaka hluti og það var alveg meiri fyrirvari á því heldur en er núna. Það hefði vel verið hægt að greina betur frá því með sundurliðun hvaða áhrif þetta hefur á dæmigerða fjölskyldu í Grindavík, dæmigert heimili. Hvernig lítur það út varðandi leiguna, hvaða leigukostnað þarf fólk að leggja út, hvaða áhrif hafði fyrsta leiguráðstöfunin á markaðinn? Maður sér það alveg í athugasemdum í þessum húsnæðishópum að leiguverð hækkaði. Það var bara einfaldlega skrúfað upp. Hérna er aukapeningur frá ríkinu og leigan fór upp í eitthvað stjarnfræðilega meira heldur en hún hefur verið.

Við þurfum í alvörunni að passa upp á þessa hluti. Við getum hlaupið hratt þegar það þarf. En við þurfum líka að hlaupa hratt á eftir okkur í rauninni, til að hreinsa upp molana sem við skiljum eftir þegar við ryðjumst svona áfram í því að klára mál sem er nauðsynlegt að klára hratt. Það hefði átt að læra af Covid. Það vannst einhvern veginn aldrei tími til að skoða hvað var gert því það var alltaf gripið inn í með svo stuttum fyrirvara með nýjum úrræðum til skamms tíma og svo áður en þessi skammi tími var liðinn komu ný úrræði aftur til skamms tíma o.s.frv. Þá gafst aldrei tími til að skoða hvernig það gekk sem við vorum með síðast. Og í rauninni ekki af því að það komu alltaf ný og ný úrræði einmitt af því að gömlu úrræðin virkuðu ekki alveg, brúarlánin og þess háttar. Það virkaði ekki fyrst, þá kom eitthvað nýtt, svo þurfti að stilla hitt fram og til baka o.s.frv.

Þannig er staðan dálítið í dag og hún er ekkert rosalega þægileg. Að sama skapi er staðan fyrir Grindvíkinga enn þá óþægilegri og því er bara sjálfsagt að koma þessu máli í gegnum þingið og glíma aðeins við þann hausverk síðar hvað þetta kostar. Eins og ég segi þá eru þessar lausnir sem er verið að tala um hérna ekkert langt frá því sem hefur verið rætt og fjallað aðeins betur um. Hvort það passar hárnákvæmlega inn í skilgreiningar eða væntingar er síðan annað mál. Við vonumst bara til þess að þetta nái að gera það sem þarf. Það er tiltölulega ólíklegt. Það er sagt að það sé meiri íbúðaþörf heldur en þetta mál dekkar. Við verðum enn þá með vanda fyrir höndum þrátt fyrir að við klárum þetta. Og hvað svo? Hvað næst? Skyldi ríkisstjórnin koma með nægilega góðum fyrirvara til þingsins með upplýsingar um það hvað á að gera næst, og til Grindvíkinga? Líklega ekki, ekki af gefinni reynslu. En ég bara hlakka til, ég hef heyrt af þessum frumvörpum sem snúast um möguleg uppkaup á íbúðum. Það er í þverpólitískum hóp. Það er alla vega betrumbót á fyrirkomulaginu þannig að þetta er allt í áttina. En af gefinni reynslu þá ætla ég leyfa mér að efast um að þingið fái í rauninni þægilega góðan tíma til þess að afgreiða slík mál.

En aftur: Óþægindi okkar eru í rauninni smámunir við hliðina á óþægindum Grindvíkinga þannig að ég afsaka stundum afgreiðsluna í þessum málum og að þau séu ekki nákvæmlega rétt og vel gerð o.s.frv. Við bara verðum að sætta okkur við það í þessum aðstæðum.

Í stóra samhenginu þá lendum við auðvitað í þessari stöðu út af aðstæðum á húsnæðismarkaði. Almennt séð þegar það er skortur á húsnæði þá verður allt svona erfiðara, öll svona inngrip á húsnæðismarkaðinn hafa þá enn meiri áhrif og enn víðtækari áhrif í rauninni á aðra þætti samfélagsins. Við fengum t.d. svör frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun núna í vikunni þar sem var fjallað um mat Íbúðalánasjóðs og síðan Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á þessari óuppfylltu íbúðaþörf, þ.e. hversu margar íbúðir þarf á Íslandi til að húsnæðismarkaðurinn sé í einhvers konar jafnvægi, hvort sem það eru félagslegar íbúðir eða á almenna markaðnum eða hvað það er. Þeirra mat var að í kringum 2016 hafi í rauninni ekki vantað neitt, verið í kringum núll, en það hafi vaxið hratt í kjölfarið. Strax 2017, á því ári, 2016, 2017, hafi vantað 2.000 íbúðir og svo tveimur árum seinna var talan komin upp í 4.000, 5.000, 6.000, 7.000 og alveg upp í 8.000 eftir því hvaða sviðsmynd var tekin, hámarks- eða lágmarksspá.

Nú erum við í þeirri stöðu að á undanförnum árum hefur vantað svona 4.000–4.500 íbúðir. Upp úr hattinum kemur síðan aftur á móti, sem er áhugavert, að það virðist vera ofmetið hversu margir búa hérna á Íslandi, í mannfjöldaspá hjá Hagstofunni. Það er verið að stilla það niður á við, miðað við fólk sem hefur komið hingað en farið aftur en ekki látið vita að það sé farið og menn halda jafnvel að það sé einhvers staðar hérna en vita ekki hvar. Þannig að miðað við nýjustu tölur sem ég sá er þessi óuppfyllta íbúðaþörf á bilinu 1.500–6.500 íbúðir. Það er líklegra að talan sé ekki í lægri kantinum, sérstaklega ef maður bætir Grindavík við og líklegra að hún sé nær hærri kantinum, það fer svolítið eftir því hvað fólki finnst vera þægilegt jafnvægi á húsnæðismarkaði hvað félagslegar íbúðir varðar.

Við erum enn þá í þeirri stöðu eftir þennan áratug síðan að húsnæðisvandinn fór að gera vart við sig að það er ekki mikið að gerast. Ofan á það allt skellur þetta óvissuástand, 1.200 íbúðir eins og var talað um í ræðu áðan, hrá tala, ef ég orða það þannig, og af því að það er svo strembin staða á húsnæðismarkaði verður þetta vandamál enn þá verra, það kostar enn þá meira fyrir ríkið að gera eitthvað, það kostar meira fyrir samfélagið. Húsaleiga hefur einmitt eitthvað hækkað í kringum inngripin á markaðinn og vegna verðbólgu og þess háttar þótt það sé erfitt að sjá nákvæmlega hver áhrifin eru og þá sérstaklega núna á næstunni, hvort þau verði meiri eftir því sem skammtímaúrræðin sem fólk hefur náð að grípa í fara að renna út. Hvernig á þá að redda einhverju í staðinn? Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta þróast.

Hvað þetta mál varðar þá veit ég ekki hvort það sé gott mál en þetta er alla vega það besta sem maður hefur í höndunum. Það, frekar en allt annað, er í rauninni það besta sem við höfum, við getum ekkert gert nema hrósað fyrir það, við höfum alla vega það, það eyðir einhverri óvissu. Ekki allri en við náum ekki meiru í bili, því miður.