154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega.

90. mál
[18:16]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um að Alþingi álykti að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að gera úttekt á kostnaði við að koma upp orlofshúsum fyrir örorkulífeyrisþega á völdum stöðum á Íslandi. Horft verði sérstaklega til orlofshúsa verkalýðshreyfingarinnar sem fyrirmyndar. Úttektin verði unnin í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Lagt verði mat á þörf, umfang, kostnað og mögulegar fjármögnunarleiðir.

Hér er lagt til, enda málið lagt fram í haust, að ráðherra kynni Alþingi niðurstöður úttektarinnar eigi síðar en 1. janúar 2024. Það mun, eðli málsins samkvæmt, eitthvað þurfa að skoða.

Þessi þingsályktunartillaga hefur verið lögð fram nokkrum sinnum áður, á 150. löggjafarþingi, 151. löggjafarþingi, 152. löggjafarþingi og 153. löggjafarþingi en hefur ekki hlotið afgreiðslu. Umsagnir hafa borist um hana í meðförum þingsins, þær hafa allar verið jákvæðar og tillagan er nú endurflutt án breytinga. Ég vil taka það fram hér að meðflutningsmenn með mér á tillögunni eru úr ýmsum flokkum en það eru ásamt mér hv. þingmenn Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhansson, Bjarni Jónsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Jóhann Páll Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Ástæðan fyrir því að ég flyt og hef flutt þetta mál er sú að eins og við vitum flest þá eru örorkulífeyrisþegar, sem eðli málsins samkvæmt eru ekki margir á vinnumarkaði, ekki heldur í neinu verkalýðsfélagi og hafa þar með ekki rétt á því orlofshúsakerfi sem byggt hefur verið upp hér á landi og njóta því ekki sömu aðstæðna og fólk á vinnumarkaði til að skipta um aðstæður, fara í frí og fara í bústað sem hægt er að taka á leigu á viðráðanlegu verði.

Ákvæði um orlof launafólks náðu fram að ganga í kjarasamningum nokkurra verkalýðsfélaga á fimmta áratugnum og voru svo lögfest í kjölfarið. Þá þegar höfðu fáein verkalýðsfélög ráðist í byggingu orlofshúsa fyrir félagsmenn sína en uppbyggingin gekk hægt og einkum ef horft er til norrænna fyrirmynda. En við vitum það núna að þrátt fyrir að þetta hafi farið hægt af stað er blómleg byggð orlofshúsa í eigu verkalýðsfélaga víðs vegar um land sem mjög mörg njóta góðs af. Ég vona að þetta mál geti orðið vísir að slíku kerfi fyrir örorkulífeyrisþega.

Það er mikilvægt að komast í frí frá heimili sínu. Það þarf að huga sérstaklega að hönnun og aðgengi orlofshúsa þegar um fatlað fólk er að ræða. Sem betur fer hefur verið gerð gangskör í því að bæta aðgengi að mörgum orlofshúsum verkalýðshreyfinganna, þ.e. aðgöngu að því að komast inn í og nýta húsin. En það er auðvitað ekki nóg ef fólk er í þeirri stöðu að eiga ekki rétt á að taka húsin á leigu. Þess vegna finnst mér mikilvægt að úr þessu verði bætt. Það þarf að byrja með því að fara í úttekt á kostnaði við að koma húsum af þessu tagi upp og aðgengið verður að sjálfsögðu að vera gott og leigan þarf að vera viðráðanleg. En ég tel að með þessu megi bæta líðan fólks og góð líðan er líka partur af því að njóta lífskjara hér í þessu landi.

Ég ætla að trúa því og treysta að þetta mál fái góðar viðtökur hér og að okkur takist að klára þetta mál sem ég held að sé ekki svo útgjaldafrekt, en ábatinn geti hins vegar verið gríðarlega mikill fyrir fullt af fólki sem með þessu gæti komist í annað umhverfi og notið samvista með vinum og fjölskyldu í orlofshúsnæði sem væri sérstaklega sniðið að þörfum fatlaðs fólks og öryggi.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til velferðarnefndar að þessari umræðu lokinni.