154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

atvinnulýðræði.

42. mál
[11:56]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um atvinnulýðræði í þriðja sinn en tillagan hefur verið flutt í þessari eða keimlíkri mynd á nokkrum fyrri löggjafarþingum. Að tillögunni standa ásamt mér hv. þingmenn Kári Gautason, Steinunn Þóra Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Bjarni Jónsson, allt saman þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Tillagan fjallar um skipun starfshóps og vil ég, með leyfi forseta, lesa hana:

„Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að skipa starfshóp aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera sem geri tillögur um hvernig auka megi lýðræði á vinnustöðum. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands, BSRB, Bandalags háskólamanna, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka íslenskra sveitarfélaga, forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Félags- og vinnumarkaðsráðherra skipi formann starfshópsins. Ráðuneyti leggi starfshópnum til aðstöðu og nauðsynlega sérfræðiþjónustu.

Starfshópurinn skili tillögum eigi síðar en 1. júní 2024.“

Hér er með öðrum orðum kveðið á um að öll þau sem að þessum málum koma komi saman og finni hvort og þá hvernig best sé að haga þessum málum, þ.e. að auka atvinnulýðræði. En hvað er atvinnulýðræði, virðulegi forseti?

Á íslenskum vinnumarkaði hefur vinnandi fólk tryggt aðkomu sína að reglusetningu í gegnum verkalýðsfélög, sem í gegnum kjarasamninga semja um kaup og kjör í tilteknum starfsgreinum eða á tilteknum vinnustöðum við atvinnurekendur eða samtök þeirra. Kjarasamningar kveða iðulega á um laun, vinnutíma, kaffi- og matarhlé, orlofsrétt, veikindarétt o.s.frv. Þótt kjarasamningar tryggi almenna aðkomu að reglusetningu tryggja þeir ekki aðkomu að ákvarðanatöku innan vinnustaða, sem hafa þó óneitanlega mikil áhrif á líf starfsfólks. Þessari tillögu er ætlað að draga ólíka aðila að borðinu sem gera eiga tillögur um hvernig auka megi lýðræði á vinnustöðum.

Andstæð sjónarmið sem hafa hér þýðingu takast á, annars vegar stjórnunarréttur atvinnurekenda og hins vegar sjálfræði starfsmanna. Þá skal tekið fram að tillögurnar eiga ekki að koma í stað eða grafa undan íslenska vinnumarkaðslíkaninu sem hefur þróast í rúma öld. Mikilvægt er að tryggja að samtakamáttur og samstaða launafólks sé í hávegum höfð auk stöðu verkalýðshreyfingarinnar. Samstaða launafólks hefur gert það að verkum að í fáum löndum er þátttaka í verkalýðsfélögum almennari en á Íslandi og hlutur launafólks í verðmætasköpun hefur farið vaxandi á meðan þróunin hefur verið gagnstæð víðast hvar á Vesturlöndum. Þessa stöðu er mikilvægt að við varðveitum hér og eflum enda eftir henni tekið. Er þessum hugmyndum því fyrst og fremst ætlað að vera viðbót við hið íslenska vinnumarkaðslíkan og liður í framþróun þess.

Virðulegi forseti. Aukið lýðræði og gagnsæi á vinnustöðum má tryggja með ýmsum hætti. Má hér nefna setu starfsmanna í framkvæmdastjórnum og eftirlitsstjórnum fyrirtækja, að lögbinda ráðgjafarrétt starfsmanna og jafnframt upplýsingarétt um tiltekin mál innan fyrirtækis, t.d. um fjárhagslega stöðu og framtíðaráform, og að starfsfólk fái til sín tiltekið hlutfall ágóða eða arðgreiðslna úr fyrirtæki sem það fær val um að ráðstafa. Bæði má kanna breytingar á núverandi löggjöf sem og ólíka hvata, t.d. skattalega og aðra fjárhagslega hvata, til að hvetja fyrirtæki að taka upp lýðræðislegri stjórnarhætti eða rekstrarform. Æskilegt er að ólíkar leiðir séu athugaðar og að reynslan af þeim sé könnuð með tilliti til félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta, sé reynsla til staðar. Þá er mikilvægt að kannað sé hvaða áhrif mögulegar breytingar kynnu að hafa á íslenska vinnumarkaðslíkanið.

Með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar má og ætla að mikilvægara sé að auka lýðræði á vinnumarkaði þegar gervigreind og sjálfvirknilausnir taka við hlutverkum mannsins í auknum mæli. Það hefur mikla þýðingu fyrir vinnandi stéttir að tekin séu skref til að gera þeim kleift að koma að ákvörðunum fyrirtækja um innleiðingu nýrrar tækni og gefa þeim þannig tækifæri til að njóta virðisaukans af tækniframförum. Þann virðisauka mætti til að mynda nýta til að stytta vinnutíma starfsfólks, hækka laun þess, auka starfsöryggi og bæta vinnuumhverfi og kjör að öðru leyti. Að auki má telja að þekking starfsfólks geti nýst vel til innleiðingar nýrrar tækni, sem gæti meðal annars birst í aukinni framleiðni fyrirtækja.

Þetta er í grófum dráttum yfirferð yfir hugmyndir um hvernig hægt væri að auka lýðræði á vinnustöðum, svokallað atvinnulýðræði. Ég ítreka að hér er ekki verið að hugsa að þetta komi á einhvern hátt í staðinn fyrir vinnumarkaðsmódelið sem er ein af grunnstoðum íslensks samfélags heldur þvert á móti að þetta styðji við það. Það getur skipt gríðarlega miklu máli að starfsfólk komi beint að ákvörðunum fyrirtækisins en á sama tíma þarf t.d. að tryggja að sú staða komi ekki upp að starfsfólk sé þrátt fyrir að eiga óvirka setu einhvers staðar, gert samábyrgt í einhverjum tillögum eða aðgerðum sem koma niður á starfsfólki. Yfirferð mín er því einungis reifun á mögulegum leiðum til að tryggja markmið aukins atvinnulýðræðis. Verði tillagan samþykkt bíður það starfshópsins sjálfs að finna réttu leiðirnar.

Virðulegi forseti. Þessar hugmyndir eru í raun ekki nýjung. Atvinnulýðræði þekkist um allan heim. Ég hvet áhugasama til að kynna sér greinargerðina þar sem farið er aðeins yfir stöðuna í Vestur-Evrópu að öðrum heimssvæðum ólöstuðum. Á Norðurlöndunum, svo sem í Svíþjóð, hefur atvinnulýðræði tíðkast lengi og er einnig vel þekkt í Þýskalandi. Að mínu mati eigum við að horfa til nágranna okkar á Norðurlöndum hvað þetta varðar.

Í þessum sal hefur þetta mál einnig verið rætt áratugum saman. Fyrsta tillagan til þingsályktunar um atvinnulýðræði var flutt á 85. löggjafarþingi vorið 1965. Þá var það Ragnar Arnalds heitinn, þáverandi hv. þm. Alþýðubandalagsins, sem flutti þá tillögu og síðan hafa fjölmargir þingmenn flutt tillögu um þessi mál. Mig langar sérstaklega að nefna hæstv. matvælaráðherra Svandísi Svavarsdóttur sem flutti ásamt öllum þáverandi þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tillögu á nokkrum löggjafarþingum fyrir nokkrum árum um skipan nefndar sem gera skyldi tillögur um atvinnulýðræði. Sú tillaga í þessari mynd sem hér er til umfjöllunar var fyrst flutt af þáverandi hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé ásamt öllum þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á 151. löggjafarþingi og þeim sem hér stendur á síðustu tveimur löggjafarþingum. Tillagan gekk þá til hv. velferðarnefndar og hafa um hana borist nokkrar umsagnir frá samtökum launafólks og Öldunni, félagi um sjálfbærni og lýðræði. Allar umsagnirnar fagna tillögunni og í umsögn VR frá 152. löggjafarþingi um tillöguna er minnt á að í yfirlýsingu í aðdraganda síðustu alþingiskosninga hafi framtíðarnefnd félagsins skorað á framboð til Alþingis að svara kröfum um atvinnulýðræði.

Atvinnulýðræði hefur því lengi verið baráttumál vinstri afla á Alþingi. Auk allra þessara þingmála hafa ýmis önnur mál komi fram á síðustu hálfu öld sem hafa miðað að því að auka þátt starfsmanna í ákvarðanatöku á vettvangi atvinnustarfsemi. Öll þau mál voru lögð fram fyrir tilverknað fulltrúa vinstri flokka.

Þrátt fyrir að oft hafi verið reynt að móta og setja reglur um framkvæmd atvinnulýðræðis á Íslandi hefur það enn sem komið er borið takmarkaðan árangur hérlendis. Atvinnulýðræði hefur þó skipað veglegan sess í mótun vinnumarkaðar í nágrannalöndum okkar síðustu hálfa öldina og þykir sjálfsagður og eðlilegur hluti vinnumála. Íslenskur vinnumarkaður verður því að teljast ærið frumstæður hvað þetta snertir og full ástæða er til að gera úrbætur á þeim mikilvæga vettvangi.

Það eru þó dæmi um að fulltrúar starfsmanna hafi með lögum fengið sæti í stjórnum menningarstofnana eins og Þjóðleikhússins og Ríkisútvarpsins og að fulltrúar starfsmanna og nemenda hafi fengið sæti í stjórnum framhaldsskólanna. Nefna má í þessu sambandi ákvæði laga nr. 23/2013, frá 20. mars, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, og ákvæði annarra laga, svo sem um framhaldsskóla og lög um Þjóðskjalasafn Íslands og leiklistarlög svo að dæmi séu tekin.

Einnig verður að hafa í huga í þessu sambandi að samvinnufélögin sköpuðu möguleika á áhrifum viðskiptamanna á rekstur fyrirtækjanna. Okkur eru flestum hugleikin samvinnufélögin og samvinnuhreyfingin og þær hugsjónir sem að baki henni bjuggu. Það átti t.d. við um neytendur í þéttbýlinu og viðskiptamenn, eins og bændur, í dreifbýlinu. Með hruni samvinnuhreyfingarinnar var allt þetta kerfi lagt niður og þó einkum sú hugmyndafræði lýðræðis sem samvinnuhreyfingin byggðist þó á í öndverðu.

Forseti. Ég hvet alla hv. þingmenn til að lesa annars ágæta greinargerð sem fylgir tillögunni. Í það minnsta er hún ítarleg og fræðandi. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að minna á að hugtakið atvinnulýðræði merkir leiðir til að auka áhrif starfsmanna innan fyrirtækja. Um það snýst þessi tillaga og að því eigum við öll að stefna að mínu mati að íslenskur vinnumarkaður geti þróast á sömu lund og hann hefur gert í löndunum í kringum okkur síðustu hálfa öld.

Að lokinni fyrri umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. velferðarnefndar.