154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:44]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, takk fyrir þetta, það er alltaf skemmtilegt að ræða um þetta. Ég er ósammála hv. þingmanni um að það sé verið að dæla yfir okkur lögum og reglum sem eiga ekki við hér og komi okkur ekki við. Ég held að mjög margt af því sem kemur í gegnum EES-samninginn sé okkur til mikilla hagsbóta og að stórum hluta ráðum við því algerlega sjálf hvernig við innleiðum það sem þar er gert. Maður hefur heyrt talað um það hér í þessum sal að gullhúðun sé vandamál. Það tiltekna hugtak kemur til þannig að ríkisstjórnir aðildarríkjanna eða EES-landanna eru að bæta alls konar hlutum við þær reglur sem koma frá Brussel sem verða íþyngjandi og er ekkert endilega í anda þess sem þaðan kemur. Það er vandamál. Reglur Evrópusambandsins eru mótaðar með mjög lýðræðislegum hætti og fara í gegnum mjög vandaða umræðu í þinginu, í framkvæmdastjórninni og í ráðherraráðinu og víðar (Forseti hringir.) og fjölmargir aðilar koma að því, verkalýðshreyfing og atvinnurekendur, þannig að við getum sannarlega, held ég, mikið lært af þeim.

(Forseti (LínS): Forseti vill ítreka að þegar þrír hv. þingmenn veita andsvar er ræðutími í seinna andsvari ein mínúta.)