154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:46]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu. Það var svo sem ekki margt í henni sem kom á óvart, komandi úr þeim flokki sem hann er í, Samfylkingunni, en ég held að það sé bara margt ágætt sem hann hefur fram að færa þarna. En mig langar aðeins að forvitnast um hvort við getum ekki verið sammála um eitt, það sem er kannski rót vandans og það sem ég nefndi hér í andsvari mínu áðan, sem er auðvitað ábyrg efnahagsstjórn sem hefur áhrif á þetta allt saman. Ég veit að þingmanninum er vel kunnugt um það sem við höfum verið að ganga í gegnum sem samfélag og samfélög um heim allan, Covid-19, stríð í Evrópu sem engan óraði fyrir, við erum með náttúruhamfarir í Grindavík og íbúar heils bæjarfélags geta ekki farið til síns heima. Allt hefur þetta þau áhrif að ríkissjóður hefur þurft að, ég ætla bara að leyfa mér að segja það, dæla út fjármagni sem hefur auðvitað haft þau áhrif að verðbólga hefur hækkað. Sams konar vandamál hefur verið til staðar í Evrópu og við sjáum það bara á hækkun á orkukostnaði sem er gríðarlegur. Þótt það hafi kannski ekki farið beint inn á húsnæðismarkaðinn þá hefur þessi staða í Evrópu komið fram með öðrum hætti. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um það, hvort sem við erum hér eða í löndum Evrópusambandsins, að ábyrg efnahagsstjórn sé það sem skipti öllu máli.