154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:49]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að hann sjái það að hann kveikti í þeim þingmönnum sem hér eru í þingsal. En gott og vel, ég skil hvaðan þingmaðurinn kemur hvað þetta varðar. En við sjáum að Evrópa er að kljást við ýmis vandamál líka, þar er atvinnuleysi mun meira en gengur og gerist hér þó að vextir séu lægri. Ég held að við séum kannski líka að kljást við þann vanda að fyrir ekki svo löngu, þegar við vorum í vaxtalækkunarferlinu, höfum við mögulega lækkað vexti of hratt og erum svolítið að súpa seyðið af því í dag. Við sjáum það líka að verðbólga víða í Evrópu fer hækkandi og það verður fróðlegt að sjá hvernig viðbrögð Seðlabanka Evrópu verða við þeim verðbólguhækkunum. Ég er ekki með eiginlega spurningu til þingmannsins en ég held að við komum alltaf niður á sama stað, að það sem öllu máli skiptir er ábyrg stjórn á efnahagsmálum hér og í Evrópu.