154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

barnalög.

112. mál
[14:00]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):

Frú forseti. Hér er örstutt lítið frumvarp um breytingar á barnalögum, svo örstutt að það eru einungis tvær setningar í því um að fjarlæga orðin „búsett hér á landi“ á tveimur stöðum í núgildandi lögum. Það gætu margir spáð í það af hverju verið er að leggja fram svona lítið og einfalt frumvarp um eitthvert slíkt mál. Jú, þetta er nefnilega frumvarp sem ætlað er að laga mistök sem urðu í meðförum Alþingis fyrir tæpum 20 árum þegar barnalög voru uppfærð. Það var nefnilega þannig í upprunalega frumvarpinu, sem kom frá ráðuneytinu á sínum tíma, að þessi orð sem hér er lagt til að falli brott voru ekki þar heldur var þeim bætt við vegna misskilnings í þinginu í meðförum þess.

Út á hvað gengur þetta? Jú, þetta gengur út á það að það er ákveðið misræmi í því hvernig meðlög eru meðhöndluð þegar fólk býr erlendis. Mig langar bara að gefa örstutt dæmi þannig að fólk átti sig á þessu. Segjum að það séu tveir einstaklingar, kona og karl, sem eigi börn saman og skilji. Ef þau eiga bæði heima á Íslandi þá rukkar Tryggingastofnun þann aðila sem ekki fer með forræðið um meðlagið og greiðir það síðan til þess sem er með forræði yfir börnunum. Segjum að konan sé með forræði yfir börnunum og karlinn sé sá sem borgar meðlag. Þá er það einfaldlega þannig að ríkið, í formi Tryggingastofnunar, sér um að ná í meðlagið til meðlagsgreiðandans, karlmannsins í þessu tilfelli, og sér um að koma því áfram til meðlagsþegans, í þessu dæmi konunnar. Þetta er að sjálfsögðu gert til þess að viðkomandi tveir aðilar þurfi ekki að vera að slást sín á milli um það hvernig peningarnir komast til skila vegna þess að ríkið hefur mun öflugri verkfæri til að sækja meðlagið til meðlagsgreiðandans en nokkurn tímann meðlagsþeginn.

En breytum þessari uppsetningu aðeins. Í þessu dæmi mínu áðan var karlmaðurinn að greiða meðlag en konan að fá meðlagið. Ef karlmaðurinn ákveður að flytja erlendis þá sér ríkið áfram um að rukka meðlagið og er með sérstaka samninga við önnur lönd um slíkt. Aftur, í þessu tilfelli, er það þannig að einungis er verið að tryggja að peningar fari frá meðlagsgreiðanda til meðlagsþegans, þess sem fær meðlagið. Þetta eru ekki ríkispeningar sem eru að fara þarna á milli heldur er einfaldlega verið að hjálpa fólki við það að peningar greiðandans fari til þess sem þiggur meðlagið. Ef við hins vegar snúum dæminu við og sá sem fær meðlagið flytur erlendis en sá sem borgar meðlagið býr á Íslandi þá gildir allt í einu sú regla að meðlagsþeginn fær ekki neitt. Þá er meðlagsþiggjandanum sett það verkefni að kaupa sér lögfræðiþjónustu og fara í það að krefjast meðlags af viðkomandi einstaklingi. Þetta er bara kostnaður upp á mörg hundruð þúsund ef ekki milljónir sem viðkomandi þarf að fara í.

Það eru kannski ekki margir sem búa við þessa ákveðnu sviðsmynd. En fyrir þessa einstaklinga sem kannski eru einhverjir tugir þá skiptir þetta bara mjög miklu máli. Þetta eru oftast einstæðir foreldrar í flestum tilvikum, einstæðar mæður með börn, sem hafa ákveðið að búa einhvers staðar þar sem er kannski aðeins ódýrara að búa. Þessir viðkomandi aðilar fá ekki meðlagið greitt vegna þess að þeir sem sátu á Alþingi árið 2003 gerðu mistök.

Já, svona er þetta. Það var nefnilega þannig að í frumvarpi til laga sem varð að barnalögum, nr. 76/2003, var ekki að finna þetta búsetuskilyrði. Í meðförum allsherjarnefndar var þessu breytt og ástæðan sem gefin var sú að gæta samræmis við þágildandi 9. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, um að meginregla um greiðslu almannatrygginga væri háð búsetu á Íslandi. Meðlag er hins vegar eðlisólíkt stuðningi ríkisins við fólk sem á rétt til greiðslu lífeyris af hálfu hins opinbera. Foreldrar eru framfærsluskyldir gagnvart börnum sínum samkvæmt IX. kafla barnalaga til að tryggja sem best hagsmuni barnsins. Það samræmist ekki jafnræðisreglu að mismuna börnum með þessum hætti eftir búsetu. Þá verður ekki séð að innheimta af hálfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé torveldari eftir því hvort móttakandi greiðslunnar er búsettur hérlendis eða erlendis. Þá má einnig benda á að finna má undantekningu á meginreglu laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, í 40. gr. þeirra, en samkvæmt því ákvæði er núverandi búseta á Íslandi ekki skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris, en barnalífeyrir er greiddur ef annað foreldra eða bæði eru látin. Börn einstæðra foreldra eru ávallt í viðkvæmari stöðu þegar annars foreldrisins nýtur ekki við. Það er ótækt að meðlagsskyldir aðilar komist hjá því að greiða meðlag nema forsjáraðilinn sjálfur fari í innheimtuaðgerðir, því íslenska ríkið mismunar þessari aðstoð við börn eftir búsetu.

Já, kæru hv. þingmenn. Hér er örlítið lagafrumvarp til að laga mistök sem Alþingi gerði fyrir 20 árum, örlítið frumvarp sem kostar ríkið ekki eina krónu að laga vegna þess að við erum að tala um það að við erum einungis að færa peningana frá þeim sem greiða meðlag til þeirra sem þiggja það, rétt eins og við gerum fyrir börn búsett á Íslandi.

Það er einskær von mín að þegar þetta mál fer í nefnd þá taki þeir sem vilja tryggja börnum sömu réttindi það upp á arma sína vegna þess að þetta er ekki mál sem á að þurfa að verða að einhverju pólitísku bitbeini. Þetta er einfaldlega misskilningur fyrir 20 árum síðan sem orsakaði það að í dag eru kannski 20–30 aðilar sem ættu að þiggja meðlag og börn þeirra lifa við krappari kjör af því að meðlagið er ekki innheimt af þeim sem á að greiða meðlagið og viðkomandi aðili hefur ekki efni á því að fara í innheimtuaðgerðir með lögfræðikostnaði. Það hafa haft samband við mig einstæðar mæður og meira að segja foreldrar einstæðra mæðra sem eru í þessari stöðu og hafa beðið mig um að leggja þetta mál fram. Ég veit að alla vega einhver þeirra munu verða í sambandi við þá nefndarmenn sem skoða þetta mál. Ég hvet hv. formann velferðarnefndar að skoða þetta vegna þess að þetta er ekki stórmál fyrir okkur að laga. En þetta er virkilegt stórmál fyrir þessa örfáu einstæðu foreldra sem þurfa að veita börnum sínum verri kjör en annars ætti að vera ef við stæðum við það sem við eigum að gera.