154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

105. mál
[14:14]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um undirritun og fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Meðflutningsmenn mínir á þessari tillögu eru hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Jódís Skúladóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Orri Páll Jóhannsson og Bjarni Jónsson.

Tillagan sjálf er stutt og hnitmiðuð en hún er svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að undirrita og fullgilda samning um bann við kjarnorkuvopnum sem samþykktur var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York 7. júlí 2017 og tók gildi hinn 22. janúar 2021.“

Við erum því að tala um samning sem þegar hefur tekið gildi og er því orðinn að afvopnunarsamningi. En það eru hins vegar ekki öll ríki heims aðilar að honum og Ísland er því miður meðal þeirra ríkja sem ekki eru aðilar að samningnum.

Áður en ég mælti fyrir þessu máli athugaði ég það og nú er staðan sú að 93 ríki heimsins hafa undirritað þennan samning og 70 ríki hafa nú þegar fullgilt hann. Því miður er það samt þannig að ekkert kjarnorkuveldanna hefur undirritað eða fullgilt þennan samning. Það er auðvitað miður og ekkert NATO-ríki hefur heldur undirritað eða fullgilt samninginn. Það er líka miður. Hins vegar hafa fjölmörg, eða 93 ríki heimsins, sem ekki hafa yfir kjarnorkuvopnum að búa, undirritað samninginn og vinna þar með að því að samfélag þjóðanna losi sig við og banni kjarnorkuvopn.

Þessi tillaga er nú flutt í áttunda sinn en hún var fyrst lögð fram á 147. löggjafarþingi. Greinargerðin hefur verið með svipuðu sniði frá upphafi en hún hefur þó verið uppfærð með tilliti til breytinga sem hafa orðið á þeim ríkjum sem hafa gerst aðilar að samningi þessum og eins ef eitthvað markvert og stórt hefur gerst á sviði alþjóðastjórnmálanna sem talið hefur verið mikilvægt að koma inn í greinargerðina.

Forsaga málsins er sú að árið 2017 samþykktu 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samning um bann við kjarnorkuvopnum. Samningurinn tók gildi snemma árs árið 2021 eftir að 50 ríki höfðu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild. Ég tel að þessar skjótu undirtektir margra þjóða alþjóðasamfélagsins eigi að ala okkur von í brjósti um það að þessi samningur komist með tímanum í hóp mikilverðustu afvopnunarsamninga þjóða heimsins á borð við samninga sem kveða á um bann við efnavopnum, sýklavopnum og bann við jarðsprengjum. Forsaga allra þeirra samninga er sú að það voru ekki ríkin sem höfðu yfir vopnunum að búa sem fyrst ákváðu að slík vopn ættu að vera bönnuð heldur voru það einmitt aðrar þjóðir sem með þrýstingi á alþjóðavettvangi breyttu afstöðu þjóða heims. Nú teljum við held ég flest að það að beita efnavopnum eða sýklavopnum í hernaði sé bara fáránleg hugmynd og að sjálfsögðu væri það að beita kjarnorkuvopnum jafn fáránleg ef ekki fáránlegri hugmynd. Slíkur er eyðingarmáttur þeirra vopna.

Aðdragandinn að því að þessi samningur var gerður var langur. Aðrir samningar um kjarnorkuvopnatakmörkun hafa verið reyndir áður og þar er kannski helst að nefna samninginn um að dreifa ekki kjarnorkuvopnum frá árinu 1968 sem á ensku, með leyfi forseta, kallast „Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons“, eða NPT-samningurinn, sem löngum hefur verið talinn einhver mikilvægasti afvopnunarsamningur sem gerður hefur verið á sviði kjarnorkuvígbúnaðar. Sá samningur felur í sér bann við frekari útbreiðslu þessara háskalegu vopna en leggur jafnframt þær skyldur á herðar þeim ríkjum sem þegar búa yfir slíkum vopnum að vinna að útrýmingu þeirra. En því miður hefur lítið borið á efndum á þeim hluta samningsins. Sem betur fer hefur þeim ríkjum sem hafa yfir kjarnorkuvopnum að ráða ekki fjölgað mikið en hættan er auðvitað alltaf til staðar að þeim muni geta fjölgað, en það er heldur ekki unnið að útrýmingu vopnanna eins og kveðið var á um í þessum samningi.

Kjarnorkusprengjum hefur að sönnu fækkað frá þeim tíma þegar þær voru flestar en þær hafa hins vegar bæði stækkað og orðið fullkomnari þannig að eyðileggingarmáttur þeirra hefur stóraukist. Til að setja það í samhengi er ágætt að nefna að þær kjarnorkusprengjur sem beitt hefur verið, og við þekkjum hversu hræðilegan eyðileggingarmátt höfðu í för með sér, bæði í Hiroshima og Nagasaki, teljast litlar í samanburði við sumar þær sprengjur sem nú eru til. Þó svo að vopnunum hafi kannski eitthvað fækkað eru nú engu að síður til meira en 12.500 kjarnorkusprengjur í heiminum í dag, sem er auðvitað margfalt það magn sem nægir til að útrýma öllu lífi á jörðinni.

Það sem einnig er að gerast er að rætt hefur verið um möguleikann á að nota minni og það sem hefur verið kallað taktísk kjarnorkuvopn ef menn telja sér trú um að hægt væri að beita þeim í staðbundnum átökum. Það er ágætt að rifja upp að á tíma Trump-stjórnarinnar var í Washington gert ráð fyrir þeim möguleika að beita vopnum með þessum hætti og það sama má segja um Pútín Rússlandsforseta sem einnig hefur nefnt möguleikann á beitingu kjarnorkuvopna í innrásarstríðinu í Úkraínu. Á sama tíma og leiðtogar tveggja stærstu kjarnorkuvelda heimsins eru í svona vangaveltum eru aðrar þjóðir að uppfæra og þróa sín kjarnorkuvopnabúr og má þar nefna sem dæmi nágranna okkar Breta sem eru að eyða svimandi upphæðum í að nútímavæða kjarnorkuvopn sín. Við vitum að það þarf ekki einu sinni markvissa beitingu í hernaði til þess að eitthvað hræðilegt gerist, þetta eru einfaldlega vopn sem eru geymd mjög nálægt okkur og slys gætu aldeilis valdið miklum skaða.

Í ljósi þessarar sögu og hversu illa hefur tekist og hægt hefur miðað að vinna að eyðingu kjarnorkuvopna komst hópur ríkja að þeirri niðurstöðu að alþjóðasamfélagið yrði að ganga lengra og leiða í lög algjört bann við notkun kjarnorkuvopna, þar sem talið var fullreynt að kjarnorkuveldin sjálf myndu stuðla að útrýmingu þeirra innan gildandi sáttmála.

Líkt og ég sagði hér áðan er ekkert kjarnorkuveldi aðili að samningnum og heldur ekkert NATO-ríki en sem betur fer hafa nú ýmis lönd Evrópu undirritað þennan samning. Mig langar að nefna Austurríki, Írland, Kasakstan, Liechtenstein, San Marínó og Vatíkanið sem hafa fullgilt þennan samning. Ár hvert fara fram fundir um það hvernig megi vinna að framgöngu þessa samnings. Því miður hefur Ísland ekki sent fulltrúa sinn, utanríkisráðuneytið hefur ekki sent fulltrúa sinn á þá fundi, en það geta ríki gert þó svo að þau séu ekki aðilar að samningnum. Ég verð að segja að það eru mér mikil vonbrigði og ég vil hvetja íslensk stjórnvöld til þess að auðvitað gerast aðilar að samningnum, en meðan það er ekki gert að taka þátt í umræðum og fundum með þeim ríkjum sem geta það án þess að vera aðilar að samningnum og sýna þannig að við viljum taka þátt í samtalinu um kjarnorkuafvopnun og að við höfum kjarkinn og burðina til þess að vera með sjálfstæða utanríkisstefnu þegar kemur að þessum málum.

Að þessu öllu saman sögðu vonast ég til, líkt og tillagan gengur út á, að Alþingi samþykki þetta mál og Ísland verði aðili að þessum mikilvægasta kjarnorkuafvopnunarsamningi sem við höfum. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu gangi málið til utanríkismálanefndar og að við fáum það svo hingað inn síðar til samþykktar.