154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

105. mál
[14:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem hv. þingmaður kom inn á undir lok sinnar framsögu, hversu gríðarleg vonbrigði það eru að íslensk stjórnvöld láti sér ekki nægja að gerast ekki aðilar að þessum samningi, en það virðist vera einhver mjög ströng lína frá NATO að það megi NATO-ríki ekki gera, heldur sýni svo mikinn þvergirðingshátt að mæta ekki einu sinni til samtalsins á fundum aðildarríkja samningsins eins og aðalritari Sameinuðu þjóðanna hvetur öll ríki til að gera. Hvort sem þau ætla að vera aðilar að þessum nýja samningi eða ekki þá hvetur aðalritari Sameinuðu þjóðanna ríki til þess að mæta sem áheyrnarfulltrúar til að breikka samtalið. Þetta hefði ég viljað sjá gerast á fyrsta aðildarríkjafundinum í hittiðfyrra og ég hefði viljað sjá þetta gerast á öðrum aðildarríkjafundinum í fyrra. Vonandi fer ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að hætta í þessu þrjóskukasti og mætir alla vega sem áheyrnarfulltrúi á þriðja aðildarríkjafundinn sem haldinn verður á næsta ári, því að ekki reikna ég með því að hún skipti um kúrs og ákveði að gerast aðili að þessum samningi. Þó að ég haldi nú alltaf í vonina þá ætla ég ekki að setja mikinn pening á það í lottóinu.

Hér tek ég eftir því að einungis þingmenn Vinstri grænna standa að tillögugerðinni. Nú er raunin sú að það eru ekki bara þessir fimm þingmenn heldur erum við 20 í hópi þingmanna úr fjórum ólíkum flokkum sem höfum skráð okkur á lista viljugra þingmanna hjá ICAN-samtökunum, þar sem við lýsum okkur reiðubúin til að vinna að framgangi þessa samnings. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort aldrei hafi staðið til hjá þingflokki Vinstri grænna að breikka samtalið hér inni á þingi og sýna fram á þá þverpólitísku samstöðu sem ríkir um þetta mál með því að bjóða fleirum til meðflutnings?

(Forseti (ÁsF): Ég minni hv. þingmann á ræðutímann.)