154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

105. mál
[14:32]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið og spurninguna og í rauninni bara fyrir brýninguna í þessum málum. Því er til að svara að mér finnst það alveg fyllilega koma til greina að leggja þetta mál fram og leita meðflutnings frá til að mynda þeim þingmönnum sem hafa, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að vilja vinna að framgangi samningsins. Ég veit svo sem ekkert hvort allir þeir hv. þingmenn sem myndu styðja þetta mál hafi skrifað þar undir en það er auðvitað svo að hægt er að koma hér upp líkt og hv. þingmaður gerði og lýsa afstöðu sinni í ræðu og væri gaman ef fleiri myndu gera það og vinna að framgangi málsins, því að það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að styðja mál sem menn eru ekki flutningsmenn á hér í þingsal. En ég ætla bara að taka þessa ábendingu til mín og til skoðunar.