154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

breytingar á löggjöf um hælisleitendur og aðstoð við þá.

[15:15]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir fyrirspurnina. Því er til að svara að við höfum verið, íslensk stjórnvöld, að skoða með hvaða hætti væri hægt að ná í fólk, ef við getum orðað það þannig, niður á Gaza, þ.e. að slík aðgerð, það að aðstoða þá dvalarleyfishafa sem þar eru staddir og eiga rétt á sameiningu við sínar fjölskyldur hér heima á Íslandi, þarfnast diplómatískrar aðkomu íslenskra stjórnvalda. Utanríkisráðherra tilkynnti um það núna heildaum helgina að hann hefði sent starfsfólk á svæðið til að kynna sér aðstæður og athuga með hvaða hætti væri hægt mögulega að koma fólkinu til aðstoðar. Ég hef ekki heyrt talað um neinar mútur í því samhengi þannig að því sé haldið algerlega til haga, enda myndu íslensk stjórnvöld ekki fara út í einhverjar slíkar aðgerðir.

Hv. þingmaður spyr síðan: Hvert er samhengi þessa máls og mögulegra breytinga á málaflokknum í heild sinni? Það hefur vissulega átt sér stað vinna í ráðherranefnd um útlendinga og innflytjendur þar sem ýmsar hugmyndir hafa verið reifaðar um heildstæða nálgun á þessum málaflokkum, sem ég held að sé jákvætt. Þar höfum við verið að ræða meira um inngildingu í samfélagið. Við höfum verið að ræða má segja ferlið allt frá því að fólk kemur hingað til lands, hvort sem það er í gegnum hælisleitendakerfið eða sem innflytjendur, og síðan áframhaldandi búsetu hérlendis með tilliti til aðlögunar að samfélaginu. Við höfum ekki verið að líta á þetta sem hluta af því verkefni sem er að aðstoða fólk við að koma (Forseti hringir.) hingað sem dvalarleyfishafar og sem tengist þá (Forseti hringir.) fjölskyldusameiningunni niðri á Gaza, þannig að það hefur engin slík samþykkt (Forseti hringir.) verið á þessu, um einhvers konar heildaraðkomu að þessu. Það hefur vissulega verið rætt en ekki í þessu samhengi sem hv. þingmaður setur það hér fram í.