154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

tilgangur tilvísanakerfis hjá heilsugæslunni.

[15:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þessa fyrirspurn. Í henni fólust auðvitað nokkrar spurningar. Ég ætla að byrja á kannski þeirri sem tengir flest af þessu, þ.e. heilt yfir er bara aukið álag, alveg gríðarlega aukið álag. Við erum akkúrat á þeim árstíma þar sem álagið er hvað mest, bæði á heilsugæslu og á bráðamóttöku og á stofnanir almennt og í þeim stormi sem gengur yfir árlega og er að gefa í ár frá ári. Þá þarf að ráða í það. Varðandi þetta erindi um skriffinnsku og aukna skriffinnsku sem tengist þeim kerfum sem við höfum byggt upp, eins og Heilsuveru, vottorðum og tilvísanakerfum, er það líka tengt því að upphaflega var heilsugæslunni ætlað það mikilvæga hlutverk í heilbrigðiskerfinu að vera leiðsagnaraðilinn, að vera fyrsti viðkomustaður, að tryggja það að sjúklingurinn sé á réttum stað á réttum tíma í kerfinu þannig að við nýtum auðlindirnar, auðvitað takmarkaðar, sem best.

Við höfum móttekið þetta erindi frá Félagi íslenskra heimilislækna. Ég verð að segja það varðandi tilvísanir barna, sem hv. þingmaður kom inn á, að við höfum líka farið í gegnum þetta í fjölmörgum skýrslum með læknum við borðið og leitað lausna. Við erum með í vinnu núna og búin að vera með í nokkra mánuði að ráða í þessar tilvísanir barna sem eru orðnar mjög miklar og erum bara að vinna að lausn í því máli og með lækna við borðið. Auðvitað munum við bregðast við þessari beiðni Félags íslenskra heimilislækna og leysa þetta mál (Forseti hringir.) vegna þess að það skiptir miklu máli. Ég vildi að ég hefði meiri tíma hér, hæstv. forseti, til að koma inn á það (Forseti hringir.) og svo þetta aukna aðgengi sem snýr að kerfunum og hvernig við höfum brugðist við.