154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

aðgerðir til að viðhalda grunninnviðum á Suðurnesjum.

[15:43]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með öðrum sem hingað hafa komið: Miklar þakkir til þeirra fjölmörgu, þeirra hundraða sem hafa komið að því mikla þrekvirki sem hefur átt sér stað, bæði undanfarna sólarhringa og bara undanfarin fjögur ár, við að takast á við þær jarðhræringar sem eru að gerast á Reykjanesi. Það sem búið er að gerast varðandi heita vatnið er náttúrlega verkfræðilegt undur og samfélagslegt undur. Samfélagið hefur staðið saman þannig að rafkerfin brenni nú ekki yfir í þessum kulda og ber að þakka fyrir það.

Ég nefndi hér fjögur ár og svo getum við talað um viðvarandi atburði frá 10. nóvember síðastliðnum þannig að við erum kannski að færast úr því að vera í viðbragði yfir í að aðlagast þeim aðstæðum sem eru uppi. Því langaði mig að koma með opna spurningu til hæstv. innviðaráðherra: Hvernig ætlum við að aðlaga okkur þessum breyttu aðstæðum varðandi þá fjölmörgu innviði sem eru á svæðinu, sem eru þá náttúrlega samgöngurnar og orku- og grunninnviðir og náttúrlega innviðir sem fylgja heilu bæjarfélagi, bæði fyrir íbúa og atvinnulíf? Hvernig ætlum við t.d. að tryggja aðgengi að Grindavíkurbæ, að þessum stóru fyrirtækjum þar sem fjöldi íbúa á Suðurnesjum öllum hefur lífsviðurværi sitt, til þess að sækja vinnu, í verðmætasköpun og verkefnum og öðru, og að atvinnulífið geti nýtt þá innviði sem eru til staðar og ekki eru orðnir skemmdir til þess að lifa með þannig að við getum þá gert einhverjar áætlanir? Hvernig ætlum við að nýta þá innviði sem við höfum og viðhalda og laga þá grunninnviði sem hafa orðið fyrir skemmdum til þess að reyna að halda ljósunum kveiktum á meðan þetta skeið stendur yfir?