154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

aðgerðir til að viðhalda grunninnviðum á Suðurnesjum.

[15:47]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Þá langar mig kannski að þrengja aðeins fyrirspurn mína í síðara skiptið að samgöngukerfinu. Þarna hefur hraunið náttúrlega farið nokkrum sinnum yfir vegi, grunnveginn að Grindavíkurbæ. Við höfum vissulega aðrar leiðir eins og er. Þetta eru líka vegir að stórum vinnustað eins og Bláa lóninu, sem er 800 manna vinnustaður. Það eru hótel þarna á svæðinu og orkuverið sjálft. Svo erum við með gríðarlega mikilvæga höfn sem hefur verið ein stærsta löndunarhöfn bolfisks á landinu og þar er mikil atvinnustarfsemi sem margir hafa lífsviðurværi sitt af. Þrátt fyrir það að við séum með endurtekna atburði, munum við ekki samt reyna að gera hvað sem við getum til að halda þessum leiðum sem greiðustum og byggja upp til þess að nýta áfram þá innviði sem þó eru eftir?